135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér kemur örlítið á óvart inntakið í síðari hluta ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar þar sem hann talaði þriðja geirann svolítið út af borðinu. Hann lagði áherslu á — já, væntanlega heitir það fyrsti geirinn, sem eru þá ríkisstofnanirnar. Mér þótti hv. þm. Paul Nikolov, flokksbróðir síðasta ræðumanns, einmitt tala um það hér að mikil þörf væri á frekari samvinnu fyrsta geirans og þriðja geirans. Ég held að það sé það sem við þurfum að rannsaka hér í framhaldi af þessari þingsályktunartillögu þegar hún hefur verið samþykkt hvernig samvinnunni verður háttað. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt og er sömu skoðunar og hv. þm. Paul Nikolov að þriðja geirinn, þessi samtök, stofnanir óformlegar eða óopinberar stofnanir og félagasamtök, fái tækifæri til þess að beina kröftum sínum ásamt almannavaldinu að þessu efni.

Ég held líka, sérstaklega í þessum málum, að það sé auðveldara fyrir aðkomumennina, sem hv. þingmaður kallaði svo — sem er kannski ágætt nafn vegna þess að við erum bæði að tala um innflytjendur sem eru íslenskir ríkisborgarar, um innflytjendur sem ekki eru orðnir það og um erlenda verkamenn. Ég held að það sé auðveldara fyrir þá að tala við fólk úr þriðja geiranum en að tala beinlínis við fulltrúa ríkisstofnana, m.a. vegna þess að þó að mörgum þykir ríkið vont hjá okkur þá er það nú verra á ýmsum stöðum úti í heimi og þaðan sem aðkomumennirnir koma upphaflega.