135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

545. mál
[20:57]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að tjá mig um það frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem hér er lagt fram. Breyting þessi er eingöngu gerð, sýnist mér, vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gaf út rökstutt álit þar sem fram kom að búsetuskilyrði 3. og 4. mgr. 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum, fyrir rétt til námslána feli í sér óbeina mismunun gagnvart farandlaunþegum og fjölskyldum á framfæri þeirra. Það teljist þar með brot gegn 2. mgr. 28. gr. og 31. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og 2. mgr. 7. gr. reglugerðar ráðsins nr. 1612/1968, um frelsi launþega til flutnings innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum. Í téðri 4. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að skilyrðið — áður en þessar breytingar verða samþykktar, ef þær verða það — er nú að umsækjandi þurfi að hafa fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samfellt eða hafi haft fasta búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils.

Ég tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að 1. gr. frumvarpsins er ansi sérkennileg og þá er ég aðallega að tala um orðalag. Það er t.d. hér að breytingin sem á að gera með lögunum er sú að þeir eigi rétt á námslánum, ekki bara íslenskir ríkisborgarar heldur líka námsmenn, sem eru ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og fjölskyldur þeirra með þeim skilyrðum sem leiðir af rétti samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Síðan er vísað í ákvæði reglugerðar ráðsins nr. 1612 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, samanber 1. gr. laga nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri hægt að skýra þetta ákvæði og gera það aðgengilegra þannig að þeir sem lesa lögin sjái svart á hvítu hvaða réttindi þeir hafa.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta lagafrumvarp en reikna með að fjallað verði um það í menntamálanefnd Alþingis.