135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

545. mál
[21:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við fyrstu sýn virtist þetta frumvarp fela í sér talsverða réttarbót til erlendra ríkisborgara sem stunda nám hér á Íslandi og fjölskyldumeðlima sem eru á framfæri erlendra námsmanna á Íslandi. Þetta varðar búsetuskilyrðin sem í núgildandi lögum hafa, eftir því sem Eftirlitsstofnun ESA kemst að niðurstöðu um, falið í sér óbeina mismunun gagnvart farandlaunþegum og fjölskyldum á framfæri þeirra. Þegar málið er lesið koma svona hlutir í ljós eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði að umtalsefni. Ég verð líka að segja að stundum þegar maður les lagatexta eða frumvörp er maður búinn að lesa hálfu og heilu blaðsíðurnar áður en maður áttar sig á því að maður hefur ekki haldið þræði þannig að ég er þakklát hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að draga fram í dagsljósið að þetta er einmitt eitt af þeim málum. Það er afar tyrfið, það er erfitt að skilja það og maður áttar sig ekki á því þó að maður rýni í það í sjálfu sér hvernig þetta kemur til með að virka, hverjar t.d. þessar takmarkanir eru sem getið er um í 2. mgr. 13. gr. laganna, hvaða takmarkanir það eru sem ESB-reglurnar innifela. Það kemur ekki fram í greinargerð með frumvarpinu. Maður áttar sig heldur ekki á því á hvern hátt þetta á að vera einföldun á því kerfi sem við erum með í dag og sömuleiðis skilur maður ekki það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti hér, þ.e. á hvern hátt þetta varðar Norðurlandabúa.

Ég vil líka, og það er nú þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs, hæstv. forseti, benda þingheimi á það að hér fáum við til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis enn eitt frumvarpið sem virðist vera einfalt en er það í sjálfu sér ekki og kann að útheimta yfirlegur á tyrfnum textum. Fimmtán starfsdagar eru eftir af starfi þessa þings. Þar af er gert ráð fyrir fimm fundardögum hjá menntamálanefnd auk þeirra nefndadaga sem eru til staðar og eins og ég gat um í máli mínu fyrr í dag er menntamálanefnd með fangið fullt og tekur við hér í dag þremur málum frá hæstv. menntamálaráðherra. Ég spyr: Hvað var því til fyrirstöðu að þetta mál kæmi fyrr fram? Þá hefði verið hægt að vinna það í nefndinni fyrri part vetrar. Ég verð að segja eins og er að ég tel ekki líklegt að það verði hægt að fara í þetta mál fyrr en þau skólafrumvörp sem við erum að vinna í eru komin í höfn.

Að lokum, hæstv. forseti, finnst mér umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á baksíðu frumvarpsskjalsins athyglisverð. Í henni kemur fram að fyrir skólaárið 2007–2008 hafi alls 11 íslenskir ríkisborgarar og fjórir erlendir ríkisborgarar fengið synjun á námslánum á grundvelli ákvæða um búsetuskilyrði í núgildandi lögum. Ég skil sem svo að með þessu frumvarpi verði leiðrétt mismunun sem þetta fólk hefur efalaust sætt. Það kemur fram að útgjöld ríkissjóðs verði óveruleg miðað við þennan fjölda við þessar breytingar, þó sé óljóst hvort erlendum ríkisborgurum og íslenskum ríkisborgurum erlendis eigi eftir að fjölga á meðal lánþega lánasjóðsins.

Niðurlagssetning fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er síðan þessi, með leyfi forseta:

„Gera verður einnig fyrirvara á því hvernig skilyrði um tengsl við Ísland við úthlutun námslána verði útfærð og túlkuð við meðhöndlun umsókna til íslenskra námslána.“

Þetta er ein af hinum óskiljanlegu setningum í þessu frumvarpi þannig að ég sé ekki annað en að hér sé heilmikið efni fyrir menntamálanefnd til að rýna í og fara ofan í saumana á. Ég verð að segja að þetta er eitt af þessum tyrfnu málum sem er kannski ekkert sérstaklega mikið tilhlökkunarefni að þurfa að bæta á sig þegar nefndin situr með fangið fullt eins og ég hef áður getið.