135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010.

519. mál
[21:47]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Mikill hluti af þessari tillögu kemur til vegna ákvarðana um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru síðasta sumar og ber tillagan þess skýrt vitni. Eins og þar var ákveðið var framkvæmdum raðað þannig að farið var í þær framkvæmdir sem voru nokkuð á veg komnar og á þeim svæðum sem þorskniðurskurðurinn kom illa við. Hér er því um að ræða framkvæmdir að mestu leyti í landsbyggðarkjördæmunum þremur og gjarnan framkvæmdir sem hægt væri að fara í fljótt.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að nefna vegna þessa máls. Það er í fyrsta lagi að þarna er fjallað um og gert ráð fyrir að ráðist verði í Vaðlaheiðargöng í svokallaðri einkaframkvæmd, eða reyndar nýrri útfærslu á einkaframkvæmd getum við sagt. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að það sé mikill bragur á því og gott að veggjöld séu nýtt til uppbyggingar samgöngumannvirkja. Ég mundi gjarnan vilja sjá meira af því í framtíðinni. Þetta á reyndar líka við um tvöföldun Suðurlandsvegar. Mér sýnist einnig að í ferjuþætti tillögunnar þar sem fjallað er um Vestmannaeyjaferju sé ákveðin útfærsla á einkaframkvæmd.

Það er alveg víst að Hvalfjarðargöng hefðu varla orðið að veruleika á sínum tíma ef ekki hefði verið fyrir frumkvæði Spalar og þeirra sem hafa árum saman sótt vinnu við Hvalfjörðinn og í Hvalfirðinum. Fyrirkomulag þeirra framkvæmdar, þ.e. álagning veggjaldanna, var algjör forsenda fyrir því að Hvalfjarðargöngin voru byggð og það er alveg víst að það hefur reynst mjög vel. Umferð um göngin hefur verið miklu meiri en allar spár gerðu ráð fyrir. Sannleikurinn er nefnilega sá, og það er alveg skýrt í mínum huga, að með því að hleypa einkaaðilum að uppbyggingu samgöngukerfisins, t.d. með því að fjármagna framkvæmdir að hluta til með veggjöldum, er hægt að efla vegakerfið verulega og þar með hlýtur þjóðhagslegur ábati að fylgja.

Veggjöld eru þekkt víða um heim í uppbyggingu samgöngumannvirkja. Bæði hafa þau verið notuð til fjárfestinga í samgöngukerfum en líka til að takmarka umferð á ákveðnum svæðum eins og t.d. í miðborgum. Við höfum farið varlega í að nýta þessa leið en ég held hins vegar að ástæða sé til þess að gera meira af því.

Nú er það þannig, herra forseti, að hér á höfuðborgarsvæðinu eru brýnar framkvæmdir sem ráðast þarf í. Mig langar að nefna Sundabraut sem er mikill og eindreginn vilji fyrir hjá borgaryfirvöldum, og ég held reyndar að svo sé í öllum flokkum, að ráðist verði í Sundabraut eins fljótt og hægt er. Í því efni langar mig til að benda hæstv. samgönguráðherra á að þegar horft er á umferðarþungann hér á höfuðborgarsvæðinu, sem ég held að enginn velkjist í vafa um að er verulegur — ég vil reyndar meina að það sé mál allra landsmanna að umferðin sé greið hér til og frá borginni, þá held ég að við þurfum að líta dálítið stærra á málin en við höfum oft gert. Við þurfum að horfa á höfuðborgarsvæðið í stóru samhengi. Sundabrautin er einn þáttur í þessu en auðvitað eru fleiri framkvæmdir sem við vitum að við þurfum að horfa til. Ég held að við verðum að horfa langt fram í tímann og reyndar á það við um samgöngumál almennt. Við verðum að reyna að horfa svo langt fram í tímann að það sem við gerum rekist ekki hvað á annars horn.

Við vitum að umferðarþunginn í Reykjavík er stöðugt að aukast og álagið á miðborgina mun aukast jafnt og þétt, ekki síst núna þegar allar þær stofnanir og háskólar og sjúkrahús eru komin niður í bæ. Þess vegna held ég að það sé gott að hugsa til þess hvernig hægt verði að koma fólki til og frá bænum.

Þá kem ég að öðru áhugamáli mínu sem er staðsetning flugvallarins á Reykjavíkurflugvelli. Nú er kveðið á um í þessari tillögu, eins og ég skil hana, að það gert verði flughlað við fyrirhugaða samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli árið 2008. Ég verð nú að segja að ég er afar ánægð með að þannig sé verið að auka möguleika til þess að koma samkeppni á í innanlandsflugi. Þeir sem hafa þurft mikið að ferðast til og frá borginni og út á land — það á bæði við um fólk sem býr úti á landi og Reykvíkinga sem eiga oft erindi út á land — vita að það er gríðarlega kostnaðarsamt að fljúga milli landshluta á Íslandi. Það er gríðarlega þung byrði fyrir fjölskyldur að þurfa t.d. að fara í læknisferð til Reykjavíkur með nokkur börn. Það er eiginlega algjörlega óþolandi að hafa ekki neina valkosti í flugsamgöngum nema að skipta við eitt fyrirtæki, svo ágætt sem það nú er. Ég get ekki fallist á að stoppa eigi allt varðandi Reykjavíkurflugvöll bara vegna þess að menn deila um það hér í Reykjavík hvar flugvöllurinn eigi að vera. Þess vegna er ég mjög ánægð með að þarna sé verið að höggva á þennan leiðindahnút með flughlaðinu.

Þótt Reykjavíkurborg ákveði það innan einhverra ára að Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara eitthvert annað — það gæti þá aldrei orðið fyrr en eftir 20 ár, held ég — þá er ekki hægt að láta bara reka á reiðanum allan þann tíma. Mér finnst umræðan um Reykjavíkurflugvöll enn þá algjörlega út og suður þannig að ég er bara mjög ánægð með að það skuli þó verið að stíga þetta skref núna hvað varðar flughlaðið. Ég bind miklar vonir við að það verði til þess að við sjáum samkeppni í flugi.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hlakka til að fjalla nánar um þetta mál í hv. samgöngunefnd og veit að það verður skemmtileg umræða þar. Ég vonast bara til að það gangi allt vel fyrir sig.