135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[21:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að koma með ákveðin atriði inn í umræðuna varðandi þennan viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun. Ég fagna því að aukið er í þá samgönguáætlun sem samþykkt var hér á síðasta þingi og tel að það sé vissulega spor í rétta átt enda var átak í samgöngumálum eitt af meginmálum í aðdraganda kosninga í vor. Það er líka ánægjulegt í ljósi þess að á undanförnum árum, á síðasta kjörtímabili, var þáverandi samgönguáætlun skert um fleiri milljarða kr. Mig minnir að það hafi verið á bilinu 4–6 milljarðar kr. sem vegáætlunin ein var skorin niður þannig að menn eru hér hægt og rólega að vinna það upp. Þar áður voru vegáætlanirnar líka skornar og voru þær þó ekkert beysnar fyrir. Það eru því ánægjulegar þessar viðbætur sem núna er verið að gera en þó er fjarri því að búið sé að vinna upp þau sviknu loforð eða þær áætlanir gerðar sem voru hér fyrr á árum. Ríkisstjórnir sem setið hafa hér á undanförnum 8–12 árum, tel ég, hafa minnst aðhafst í samgöngumálum. Ég vil meina að árið 2005 sé eitt lakasta árið um langt árabil í þeim efnum. Þegar horft er til þess er það þó ánægjulegt að hér skuli verið að grípa til aðgerða.

Ég vil hér minnast á örfá atriði og spyrja hæstv. ráðherra varðandi þessa viðbótaráætlun. Það er í fyrsta lagi varðandi flugvellina á Patreksfirði og Bíldudal. Hv. varaþingmaður Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir lagði fram fyrirspurn um Patreksfjarðarflugvöll nú fyrir skömmu og ég á inni svar við fyrirspurn um flugvöllinn á Bíldudal. Við vorum á fundi með sveitarstjórnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar nú í dag og þá kom fram að báðar sveitarstjórnirnar hafa ályktað mjög afdráttarlaust um að flugvöllurinn, sérstaklega á Bíldudal — sem þær hafa þá sameinast um að verði meginflugvöllur, a.m.k. undir þeim kringumstæðum sem nú eru — verði byggður upp, lengdur og gerður afkastameiri. Ég veit að hæstv. ráðherra er kunnugt um hvort tveggja. Ég get vitnað hér í ályktun hreppsnefndar Tálknafjarðarhrepps sem er samhljóða ályktun hreppsnefndar Vesturbyggðar um þetta þar sem skorað er á samgönguráðherra að hrinda í framkvæmd stækkun Bíldudalsflugvallar sem allra fyrst. Við það skal miðað að flugvöllurinn verði í það minnsta sambærilegur að stærð og Þingeyrarflugvöllur eða með um 1.200 m flugbraut ásamt tilheyrandi öryggissvæðum. Síðan er rökstutt hversu gríðarlega mikilvægt þetta er fyrir byggðarlagið, að flugvöllurinn geti annað meiri umferð, tekið á móti stærri vélum, bæði hvað varðar farþega og flutninga.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi ekki til greina — þó að ég eigi þessa fyrirspurn inni þá er hún búin að vera þar lengi — að við tökum inn í þessa áætlun fjárveitingu til þess að kanna eða undirbúa lengingu og styrkingu flugvallarins á Bíldudal. Jafnframt spyr ég hvort ekki eigi að finna framtíðarhlutverk og stöðu fyrir Patreksfjarðarflugvöll eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á í svari sínu við fyrirspurn hv. þm. Ingibjargar Ingu Guðmundsdóttur um daginn. Þetta er svo gríðarlega brýnt að þetta sé gert fyrir samfélögin þarna sem sjá fram á mikla möguleika í tengslum við þessa umferð. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það, ég veit að hæstv. ráðherra er vel með á nótunum hvað þetta varðar.

Hitt sem ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra út í varðar ferjusiglingar Baldurs um Breiðafjörð. Á fundinum fyrir vestan var lögð áhersla á að ferðum með Baldri yfir Breiðafjörð yrði ekki fækkað, frekar fjölgað en eins og nú stefnir í mun ferðum þar fækka. Það er rétt að greina frá því að 1. þingmaður kjördæmisins, hæstv. forseti Sturla Böðvarsson, rakti einmitt á þessum fundi að vegaframkvæmdum hefði seinkað sem hefði verið viss forsenda fyrir því þegar gert var ráð fyrir fækkun ferða. Það væru því mörg rök fyrir því að þessir samningar yrðu endurnýjaðir og ferðum fjölgað í samræmi við þann ferðafjölda sem nú er Breiðafjörð. Það mun líka þurfa að koma inn í samgönguáætlunina. Ég er hér með áskoranir frá íbúum í Vesturbyggð, Tálknafirði og einnig frá Framfarafélagi Flateyjar um þetta mál. Þetta vil ég því spyrja hæstv. ráðherra um.

Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra um vegasambandið um Súðavíkurhlíð, þ.e. milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar við Ísafjörð. Við fylgdumst jú með fréttum í vetur af því hve oft var tilkynnt um hættu á ferðum fyrir Súðavíkurhlíð og að snjóflóð féllu þar jafnvel svo tugum skipti á skömmum tíma. Í úttekt sem hefur verið gerð á snjóflóðahættu um Súðavíkurhlíð kemur fram að það er sá vegarkafli á landinu þar sem hvað oftast falla snjóflóð eða mest hætta vegna snjóflóða. Þetta er innan byggðar og rétt er að í röðun vegaframkvæmda á Vestfjörðum hafa menn gert ráð fyrir því að aðrar framkvæmdir yrðu þar á undan. En svo horfir maður til þess að allar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum sem gerðar voru áætlanir um fyrir jafnvel tveimur áratugum síðan hafa dregist og dregist, færst aftar og aftar. Að mínu viti eru því mjög góð rök fyrir því að þarna sé líka rækilega aukið í, að taka vegabætur, jarðgöng eða þá aðra leið sem menn gætu séð þar fullnægjandi nú þegar inn á dagskrá. Það væri mjög ósanngjarnt að láta það seinka framkvæmdum sem nú eru í gangi, heldur ætti frekar að vinna upp þær tafir og þau svik sem hafa verið varðandi vegáætlun, vegagerð og samgöngubætur á Vestfjörðum á undanförnum áratugum.

Það var jú mörkuð sú stefna að það skyldi vera forgangsmál að tryggja samgöngur innan byggðarlaga. Samgöngur þarna á milli, þ.e. milli Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur — þetta er jú eitt byggðar- og atvinnu- og þjónustusvæði og á skilyrðislaust rétt á að vera tekið inn. Það er sjálfsagt að fagna því að nú skuli vera búið að bjóða út jarðgöngin um Óshlíð. Það var ekki hvað síst fyrir þrýsting og undirskriftir heimamanna að þau mál fóru á það skrið sem raun ber vitni þó að síðan sé sjálfsagt að þakka ráðherrum sem þar áttu hlut að máli þegar málin voru komin á þann rekspöl. Nú hefur það sama aftur gerst varðandi íbúa í Súðavík. Þeir óska eftir samgöngubótum (Forseti hringir.) þar. Ég spyr því hæstv. ráðherra einnig um þetta mál, herra forseti.

Ég er ekki kominn að öllu sem ég vildi nefna. Þetta er svo stuttur tími en ég óska eftir að fara þá aftur á mælendaskrá þar sem ég get þá haldið áfram máli mínu, herra forseti.