135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:38]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að upplýsa hv. þingmann og þingheim um það að ég virði þá niðurstöðu skipulagsyfirvalda í Reykjavík að Reykjavíkurflugvöllur muni í fyllingu tímans og á skipulagstímabilinu fram til 2016, eða fyrir 2016 minnir mig að það sé, hverfa úr Vatnsmýrinni. Ég tel það eðlilegt í sjálfu sér og ég væri til í að upplýsa hv. þingmann um hugmyndir mínar um hvað ætti að koma í staðinn fyrir hann við þetta tækifæri eða annað.

Ástæðan fyrir því að ég hef haft áhyggjur af flugvellinum í Vatnsmýri er ekki skipulagslegs eðlis. Ég álít að af því að hafa flugvöll í svo þéttri og miðri byggð sem hér er stafi nokkur hætta fyrir þá íbúa sem flugið er yfir höfðunum á allan daginn og reyndar einnig fyrir umhverfið. Við vitum að það hefur að meðaltali, þó ekki allra síðustu ár, orðið eitt alvarlegt slys á Reykjavíkurflugvelli á u.þ.b. 10 ára fresti og það er svipað og gerist með aðra flugvelli svipaðrar umferðar og stærðar. Ég tel að meðan flugvöllurinn er hér eigi ekkert til að spara að tryggja öryggi flugsins og byggðarinnar vegna þess að sambýli flugs og byggðar hér á þessu svæði er ansi mikið mál. Ég hef kynnt mér þessi mál og fylgst mjög náið með þeim um árabil og mér er ekki rótt, herra forseti, þegar ég horfi hér á það hvernig flugið fer langt út fyrir þau mörk sem þó eru leyfð og fyrirlögð.