135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:56]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekki alveg sammála hv. þingmanni að þessu leyti vegna þess að þegar fyrir liggur fjárveiting ríkissjóðs til dæmis til Suðurlandsvegar eða helmings Vaðlaheiðarganga og það liggur fyrir að það eigi að greiða svo og svo mikið á ári þá er það orðin ríkispappír og sá sem framkvæmir hann getur selt þann ríkispappír með nákvæmlega sömu ávöxtun og ríkissjóður sjálfur þannig að það á ekki að breyta neinu með fjármögnunarkostnaðinn.

En þetta þarf að koma fram. Það þarf að gefa út þennan pappír og hann þarf að liggja fyrir. Það finnst mér skorta. Og svo getur vel verið að í Suðurlandsvegi geti einkaaðili fundið ódýrari lausn á vegaframkvæmdinni sjálfri. Ég efa það ekki. Ég hugsa að ef þetta yrði boðið út þá gæti fundist mjög snjöll lausn á heildarveginum.

Hins vegar í því sambandi, ef ég má bæta við, þá finnst mér dálítil synd að menn skuli ekki skoða jarðgöng niður Kambana. Mér finnst dálítið dapurlegt að leggja tvöfaldan veg í hlykkjum þarna niður vegna þess að ég hugsa að eftir svona 10–15 ár muni menn gera þarna jarðgöng og þá er dálítið slæmt að vera búin að setja mjög dýran veg þarna niður brekkurnar í hlykkjum.

En peningar sem koma frá ríkissjóði örugglega og með ákveðnum hætti samkvæmt lögum, það er peningur sem ber sömu ávöxtun eins og ríkissjóður borgaði sjálfur.