135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:27]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi leiðirnar út úr höfuðborginni til norðurs held ég að með tilkomu Sundabrautar sé ekki hægt að reikna með því að Vesturlandsvegur í gegnum Mosfellsbæ sé í raun og veru þjóðbraut vestur og norður um land, það mun breytast. Það verður auðvitað fyrst og fremst umferðaræð til að þjóna, má segja, Mosfellsbæ, vaxandi byggð í Úlfarsárdal, í Grafarvogi, Grafarholti o.s.frv. Það mun flytjast til. Það vekur líka furðu mína að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé andvígur því að búa vel að umferðarstraumum frá höfuðborginni yfir í Norðvesturkjördæmi sem þessar brautir eru að sjálfsögðu.

Varðandi síðan aftur þetta með mannvirkin á höfuðborgarsvæðinu held ég að við getum verið sammála um að það þurfi að horfa á þessi mál með nýjum og öðrum hætti. Það hefur verið tilhneiging eins og t.d. hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu, m.a. Reykjavíkurborg, undanfarin ár að reyna að horfa á umferðarmál með öðrum hætti. Við munum ekki geta leyst vaxandi umferðarþunga hér með sífellt nýjum umferðaræðum, það verður að leita nýrra lausna og það eru margvísleg rök sem tala fyrir því, samgöngupólitísk, fjárhagsleg, umhverfisleg rök að því er varðar umferðaröryggi o.s.frv. Við eigum að leggja meira fjármagn í þetta og það er það sem ég sakna auðvitað í heildarstefnumótun í samgöngumálunum hér, m.a. í samgönguáætlun, að menn taki þessa þætti inn, a.m.k. að því er höfuðborgarsvæðið varðar með miklu meira afgerandi hætti, almenningssamgöngur, möguleika á hjólandi umferð og gangandi. Hvað varðar uppbyggingu og þéttingu byggðar sem oft hefur verið rætt um er forsenda fyrir því að menn horfi á samgöngumálin út frá nýjum lausnum. Það er það sem ég veit að borgaryfirvöld vilja gjarnan gera og það þarf (Forseti hringir.) að komast hér inn í umræðuna um samgöngumál á Alþingi líka.