135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:06]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski rétt sem hér hefur komið fram að það þyrfti að vera meiri tími til að ræða þetta en svona er þetta nú.

Ég gleymdi því líka í ræðu minni áðan, og það var kannski vegna þess að ég var ekki kominn nógu aftarlega, að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir það frumkvæði sem hann sýndi við einkaframkvæmdina við Hvalfjarðargöngin á sínum tíma sem auðvitað var þörf og góð framkvæmd og var sett í gagnið vegna þess að þessi leið var farin. Ég er ekki viss um að tekist hefði að koma henni eins fljótt og vel í gang nema vegna þeirrar framsýni sem þar var um að fara með verkið í einkaframkvæmd sem við erum enn að borga af. Má ég líka minna á, virðulegi forseti, að gjöldin hafa heldur betur lækkað þannig að það hefur sýnt sig að þetta er gott dæmi um einkaframkvæmd sem ríkið mun svo eignast í leiðinni.

Jú, það hlýtur að vera svoleiðis með Vaðlaheiðargöng að við séum að tala um sama formið. En ég vil taka það fram og hafa fyrirvara á, virðulegi forseti, vegna þess að við erum að fara í raun og veru inn á þá (Forseti hringir.) nýju braut núna í breyttu umhverfi að við þurfum að vera undirbúin á öllum stigum málsins við þessa einkaframkvæmdarleið að skoða og fara í gegnum það hvernig við klárum hana.