135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:09]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ákaflega stoltur af því sem ég sagði, og hv. þingmaður hefur lesið hér upp, í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra frá síðasti hausti og stend við það allt saman og afstaða mín hefur ekkert breyst hvað það varðar.

Við höfum því miður ekki reynslu nema af einni einkaframkvæmd í vegamálum og það eru Hvalfjarðargöngin sem ég ræddi um áðan og þakkaði hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir frumkvæðið sem hann sýndi á þeim tíma við að koma því á legg að Hvalfjarðargöng yrðu lögð. Það má eiginlega segja sem svar við spurningu hv. þingmanns ef við tökum bara innlenda dæmið að reynslan af því er á allan hátt mjög góð, áætlanir hafa staðist vel, reksturinn hefur gengið vel samanber það að gjöldin hafa verið að lækka, þau eru hlutfallslega orðin miklu lægri en þau voru í byrjun og þetta er hið besta mál. Þetta gerði það að verkum, eins og ég held að allir séu sammála um, að með því að taka Hvalfjarðargöngin í einkaframkvæmd voru þau lögð á þeim tíma, annars hefðu þau þurft að bíða eftir því að koma inn á hefðbundna samgönguáætlun.

Það hljóta þá að vera, virðulegi forseti, sem rök fyrir spurningu hv. þingmanns að taka þetta innlenda dæmi um Hvalfjarðargöng og eins og það hefur gengið fyrir sig, sem var frábær úrlausn og rekstur sem hefur gengið vel.

Vafalaust getur, eins og hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni, erfitt ástand á fjármálamörkuðum ruglað svona dæmi. Ég var á sýningu í dag sem heitir Verk og vit. Ég ræddi þar við aðila sem eru og hafa verið í miklum framkvæmdum og spurði hvernig gengi. Þær hefur rekið í stopp vegna ástandsins á fjármálamörkuðum og þetta er í byggingarframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Sem svar við spurningu hv. þingmanns og gott dæmi um einkaframkvæmd eru Hvalfjarðargöngin á Íslandi.