135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:13]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það getur vel verið að það sem hér kom fram hjá hv. þingmanni hefði verið dýrara, auðvitað hafa menn verið að borga af lánum og öðru slíku en það má þá líka segja að það kemur á móti að af þessum ríkissjóðspeningum hefur hann verið að fá vexti af því sem hann eyddi ekki. Aðalatriðið er að ríkissjóður notaði þá peninga í önnur verk þannig að einkaframkvæmdin Hvalfjarðargöng tók ekki neitt frá öðrum framkvæmdum og þess vegna fóru þau í gang. Svo getur verið að vextir hafi verið óhagstæðir í byrjun og ég hygg að ég hafi líka heyrt það að vegna deilna um hvort það væri yfir höfuð hægt að gera þetta hafi erlendir lánardrottnar gert hærri ávöxtunarkröfu. Síðan hefur lánunum verið skuldbreytt og fengist betri vextir á þau en grundvallaratriðið er þetta.

Virðulegi forseti. Það sem ég ætlaði segja, vegna þess að nú hef ég nákvæmar upplýsingar um þetta, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem þá var samgönguráðherra, og hæstv. forseti Íslands, sem þá var fjármálaráðherra, voru þeir aðilar sem settu þetta verk í gang og skrifuðu (Forseti hringir.) undir samning um Hvalfjarðargöng. Það er svar mitt enn og aftur: Þau er besta dæmið um vellukkaða einkaframkvæmd í samgöngumálum.