135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ítrekaði hér að almenningssamgöngur eins og strætisvagnasamgöngur væru verkefni sveitarfélaga og ég veit að sveitarfélögin skorast ekki undan því að reka almenningssamgöngur og hafa eðlilega gert það með vaxandi þunga á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar er dapurlegt að ríkisvaldið skuli beinlínis vinna gegn uppbyggingu almenningssamgangna á þessu svæði með því að leggja — hæstv. ráðherra, ég er að tala um að það sé dapurlegt að ríkisvaldið skuli vinna gegn uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með því að leggja mjög íþyngjandi álögur sérstaklega á almenningssamgöngurnar. Þar er einkum tvennt sem ég vil tiltaka og það er að almenningsvagnar njóta ekki sömu endurgreiðslu á virðisaukaskatti að tveimur þriðju hlutum af kaupum á nýjum vögnum eins og hópferðabifreiðar gera. Þarna munar mörgum tugum milljóna sem lagt er á þessi fyrirtæki.

Það er líka annað, hæstv. ráðherra, að þegar þungaskatturinn var aflagður og olíugjaldið tekið upp átti það ekki verða íþyngjandi, ekki meira en þungaskatturinn var. Reyndin er önnur, þetta er íþyngjandi fyrir reksturinn, bæði stofnkostnaðurinn og reksturinn á almenningssamgöngum alls staðar á landinu, því að þær eru reknar víðar en á höfuðborgarsvæðinu, alls staðar kemur ríkið þvert á þá nauðsynlegu þróun sem er uppbygging almenningssamgangna í landinu. Þar er verk að vinna, hæstv. ráðherra.