135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Meðan strætisvagnarekstur er verkefni sveitarfélaganna þá er þetta sú verkaskipting sem við verðum að fara eftir og við höfum oft fjallað um þessi atriði, það er alveg klárt.

Síðan er það aftur spurning um hvernig tollar af virðisaukaskatti af strætisvögnum eru og öllu því. Það er væntanlega vegna þess að strætisvagnarekstur eða innheimtan af gjöldunum er hvorki innskattur né útskattur.

Hv. þingmaður var hér á þinginu þegar þungaskatti og olíugjaldi var breytt og ég get alveg tekið undir það að þá voru sett fram fögur markmið um að lækka og setja olíugjald til þess að auka notkun á dísilknúnum bílum. Þau hafa ekki gengið eftir vegna þess að olíuverð í heiminum hefur rokið miklu meira upp en bensínverð. Þetta er það sem hefur ruglað þetta dæmi og mér skilst að þetta sé til komið vegna þess að Kínverjar kaupi svo mikið af olíu. Það er kannski aðalorsökin, ég veit það ekki en ég hef lesið um það.

Þetta eru þeir hlutir sem hafa ruglað þetta dæmi. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að strætisvagnarekstur er verkefni sveitarfélaganna. Við getum farið aftur í gegnum það sem hv. þingmaður minntist á, þ.e. skatta og álögur af tækjunum þegar þau eru keypt til landsins. En ég minni hins vegar á það, virðulegi forseti, að bæði á vegum fjármálaráðuneytis og samgönguráðuneytis, með aðild fulltrúa sveitarfélaganna en fulltrúar sveitarfélaganna eiga sæti í nefnd sem fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra skipaði, er þessari vinnu að ljúka og við skulum bíða og sjá hvað kemur út úr því.