135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur lýst því yfir úr ræðustól Alþingis að einkaframkvæmd sé hagkvæmari með tilliti til kostnaðar og með tilliti til þess að tímaáætlanir standist betur en þegar um er að ræða framkvæmd á vegum hins opinbera.

Ég hef spurt hvaðan hann hafi upplýsingar um þetta vegna þess að ég hef kynnt mér fjölmargar skýrslur um einkaframkvæmd, m.a. í Bretlandi og víðar í Evrópu þar sem reyndin hefur verið þveröfug við það sem hæstv. ráðherra lýsir. Þess vegna hef ég óskað eftir því að hann gerði þinginu grein fyrir því hvaðan hann hafi þessar upplýsingar vegna þess varla geta menn verið að fullyrða svona eitthvað út í loftið.

Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin gangi erinda verktaka og að menn séu svo gagnrýnislausir í málflutningi sínum að þeir leyfi sér að fullyrða svona nokkuð gagnvart Alþingi og alþjóð án þess að byggja á einhverjum raunhæfum rannsóknum og skýrslum, þegar verið er að fullyrða um þetta fyrirkomulag með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur verið gert.

Nú kemur á daginn að hann segist hafa upplýsingarnar frá Hvalfjarðargöngunum, einkaframkvæmdinni þar. Það hefur verið gerð úttekt á Hvalfjarðargöngunum af hálfu opinbers aðila, Ríkisendurskoðunar. Ég vísaði í þá úttekt en þar kemur fram og er skýrt á hvern hátt hafi ekki verið pólitískar forsendur, samstaða um að ráðast í verkefnið, nema með einkaframkvæmd. Það kemur líka í ljós að það hafi ekki verið ódýrara eða hagkvæmara að fara einkaframkvæmdarleiðina en hina leiðina. Það er einfaldlega verið að segja: Það hefði hins vegar ekki endilega verið gert.

Og þá er komið að veikleikum einkaframkvæmdarinnar því ég heyrði ýmsa hér í salnum segja: Það hefði ekkert verið framkvæmt, það hefði ekkert verið gert. Það má vel vera. Þess vegna hafa t.d. einkaframkvæmdarsinnar í Bretlandi verið að framkvæma geysilega mikið á kostnað framtíðarinnar. Skólar hafa risið. Sjúkrahús eru opnuð, allt saman í einkaframkvæmd. En í bókhaldi viðkomandi sveitarfélaga eða ríkis eru engar skuldir vegna þess að þær eru hjá einkaaðilanum sem framkvæmir en komandi kynslóðum er ætlað að borga.

Þessu er ekki þannig varið með Hvalfjarðargöngin. Þar eru það þeir sem fóru um göngin sem greiddu, því að sjálfsögðu er það þjóðin sem borgar. Hún borgar, hvort sem það er með sköttum eða notendagjöldum af því tagi sem hér um ræðir.

Hér er því verið að fjalla um hvort þetta fyrirkomulag, einkaframkvæmdin, sé dýrari eða ódýrari kostur. Hvort það standist betur áætlanir en framkvæmdir á vegum hins opinbera.

Ég leyfi mér að vísa í skýrslur sem unnar hafa verið um þetta efni og ítreka það, ég hef þær undir höndum, og furða mig á því að hæstv. ráðherra leyfi sér að fullyrða svona nokkuð og byggi síðan ekki á nokkru. Hann vísar í Hvalfjarðargöngin og reynsluna af þeim þegar fyrir liggur úttekt Ríkisendurskoðunar sem segir að sú framkvæmd hafi ekki verið hagstæðari fyrir skattborgarann eða notandann með þessu fyrirkomulagi og ráðleggur gegn því að ráðast í einkaframkvæmd á Sundabraut. Það er beinlínis tekið fram að það væri ekki heppileg leið að fara. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þá er heldur ekki hægt að draga þá ályktun að sérstök rök mæli með því að fela einkaaðilum gerð og rekstur Sundabrautar, hvort sem er 1. áfanga eða þeirra síðari, fremur en að ráðast í framkvæmdina með hefðbundnum hætti á vegum ríkisins.“ Þetta er það sem Ríkisendurskoðun er að segja. (Forseti hringir.)