135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:25]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt að vona að enginn haldi því fram að með því að vera hlynntur einkaframkvæmd eða beita sér fyrir einkaframkvæmd þá gangi menn þar með erinda verktaka eða verksala. Svoleiðis er það ekki.

Það er auðvitað keppikefli allra aðila sem standa að framkvæmdum að fá sem lægst og best tilboð, að sem flestir sem taki þátt í útboðum og skili inn tilboðum þannig að ríkissjóður og verkkaupinn, hver sem hann er, fái góð tilboð. Þó að auðvitað séu svo alltaf ákveðin mörk fyrir því hverju er hægt að taka. Stundum geta tölur verið þannig.

Hv. þingmaður gerði það að umtalsefni að ég hefði ekki vitnað í neina skýrslu. En ég hef lesið mikið um einkaframkvæmdir í Noregi þótt ég sé ekki með þær skýrslur fyrir framan mig. Við höfum líka átt fund með aðilum frá Noregi sem hafa sýnt okkar fram á hvernig þetta er gert. Ég held að þetta hafi gefist bara mjög vel.

Það verður áfram þannig, virðulegi forseti, að þótt ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson séum sammála um ýmsa þætti, t.d. á félagslega sviðinu, þá verðum við sennilega aldrei sammála um einkaframkvæmd eða hlutafélög eða opinber hlutafélög eins og við ræddum hér ekki alls fyrir löngu með Keflavíkurflugvöll sem opinbert hlutafélag. Um þetta verðum við einfaldlega ósammála og það er bara hið besta mál. Það er ekkert að því.

En, virðulegi forseti, hér í þessu stutta andsvari langar mig til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort það hafi ekki verið fínn samningur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þáverandi samgönguráðherra og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Ólafur Ragnar Grímsson beittu sér fyrir og skrifuðu undir á vordögum 1991 sem var undanfari að framkvæmdinni við Hvalfjarðargöng, sem er eins og ég hef áður sagt hin besta framkvæmd. Var hv. þingmaður ekki ánægður með það verk sem þar var unnið?