135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er kannski nauðsynlegt að rifja upp nokkrar staðreyndir í sambandi við Hvalfjarðargöng til þess að menn séu ekki að nota þau sögulega séð með óréttmætum hætti og blanda því inn í áform sem nú eru uppi um einkaframkvæmd í almennri vegagerð. Ég bið menn að fara ekki út í slíka lágkúru í málflutningi, af því að þeir sem þekkja söguna vita að þetta eru ósambærilegir hlutir, bæði hvað varðar hina pólitísku stöðu mála, eins og hún var og í sjálfu sér er, og þá staðreynd að Hvalfjarðargöng voru frá byrjun lögð upp sem algerlega sjálfstætt verkefni sem mundi borga sig sjálft, að umferðin mundi greiða þau til baka að fullu. Þau voru hvergi inni á vegáætlun og engin pólitísk samstaða er um að taka þau þangað inn og ýta öðrum framkvæmdum aftur fyrir. Þau voru hvergi inni í röð jarðgangaáforma á þessum tíma og þetta vissu allir. Opinber og hálfopinber fyrirtæki, Sementsverksmiðja ríkisins, Akraneskaupstaður og Járnblendiverksmiðjan, sem þá var, ef ég man rétt, að hálfu í eigu ríkisins, voru frumkvöðlar í málinu og á því byggði það að ráðist yrði í verkið.

Það má segja með Vaðlaheiðargöng að dæmið sé svipað hvað það varðar að efnisleg rök eru fyrir því að láta það hagræði sem umferðin sem um þau kemur til með að fara nýtur af göngunum að einhverju leyti hjálpa til við að borga þau. Það er algerlega ljóst að einfaldast og ódýrast væri að ríkið annaðist þá framkvæmd sjálft og tæki gjöldin til að borga þann hluta verksins sem umferðin getur séð um. En þetta eru alveg sérstök dæmi. Í báðum tilvikum hafa þau ekki verið inni í framkvæmdaröð.

Heldur hæstv. ráðherra, Kristján Möller, eitt augnablik að samstaða væri um það, eða er hann tilbúinn til að leggja það til, að fresta Oddsskarðsgöngum og byrja á Vaðlaheiðargöngum á undan með venjulegum hætti? Þannig talaði hv. þingmaður a.m.k. í vor þegar hann var í vesturhluta Norðausturkjördæmis, svo breyttust ræðurnar þegar hann var kominn austur á land. Ekki er hátt risið á slíkum málflutningi.

Það er fráleitt að bera þessi dæmi, og sérstaklega Hvalfjarðargöngin, saman við það sem nú virðist vera á döfinni, að fara í einkaframkvæmd á einstökum hlutum þjóðvegakerfisins sem samstaða er um að ráðast í eins og að bæta veginn austur fyrir fjall. Að fara þá leið sem gefið er í skyn að eigi að fara í samgönguáætluninni er alger ófæra, að senda allan reikninginn inn í framtíðina og að ríkið taki lán hjá framkvæmdaraðilunum á byggingartíma og borgi svo inn á verkið næstu 25 árin. Þetta er rugl og ég er sannfærður um að Ríkisendurskoðun er ekki margar vikur, ef hún fær að gera um það skýrslu fyrir hæstv. ráðherra, að koma fyrir hann vitinu og leiða fram sterk rök fyrir að þetta sé óráð og auðvitað eigi að fara í þessa framkvæmd eins og er bæði eðlilegast, einfaldast og ódýrast á venjulegum forsendum og að ríkið geri þetta sjálft, bjóði að sjálfsögðu framkvæmdina út og láti verktaka um að vinna verkið eins og við gerum almennt í okkar vegagerð.

Ég verð því að hryggja hæstv. ráðherra með því að tilraunir hans til þess að reyna að digta upp einhvern ágreining um þessi mál í röðum okkar þingmanna Vinstri grænna eru dæmdar til að mistakast því að hann er enginn fyrir hendi. Auðvitað má hæstv. ráðherra reyna að eyða tíma sínum í slíka vitleysu en það hefur bara ekkert upp á sig fyrir hann því að honum mun ekki verða kápan úr því klæðinu.

Hæstv. ráðherra hefur ekki allt of þykkan ís undir fótum í sumum tilvikum í þessum málum, hafandi talað eins og hann gerði, eða flokksbræður hans í Norðvesturkjördæmi, sem gerðu meira og minna alla sína kosningabaráttu út á það að þeir ætluðu að leggja niður gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum, jafnmálefnalegt og það nú var. Hvar standa þeir nú með þau mál? Er það orðið markmið hjá Samfylkingunni að hýða sjálfa sig í hverju málinu á fætur öðru, að láta kosningaloforðin fara öll ofan í vaskinn bara í hvelli? Er ekki nóg að hann sé hálfstíflaður af Fagra Íslandi? Þarf meiri kekki ofan í vaskinn hjá Samfylkingunni, svo sem eins og öll loforðin í samgöngumálum? Ég bið hæstv. ráðherra að láta af þessum leik og eiga frekar málefnalegan orðastað við okkur um þessa hluti eins og þeir eru og eins og þeir liggja fyrir.

Enn hryggir það mig að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa bein í nefinu til þess að taka af skarið um það hver er hans afstaða til þess að það sé að sjálfsögðu skilyrði að þessi mannvirki — verði þau að einhverju leyti, eins og Vaðlaheiðargöng, unnin í einkaframkvæmd — verði eign ríkisins að samningstíma loknum og renni (Forseti hringir.) þá til vegakerfisins.