135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er skemmtileg umræða. Við erum komin aftur til ársins 1991 og ætla ég enn einu sinni að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þáv. samgönguráðherra, fyrir það frumkvæði sem þar var sýnt, að hafa kjark og þor til þess að beita sér fyrir samningum um Hvalfjarðargöng eins og þar var gert, sem var þá einkaframkvæmd. Ég vona, hæstv. forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson hlusti nú á mig. Ég var að dásama þá ákvörðun sem tekin var af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni 1991 að beita sér fyrir því sem samgönguráðherra að gera þann samning sem gerður var um Hvalfjarðargöng á sínum tíma, hann skrifaði algjörlega á blað þessa fyrstu einkaframkvæmd í samgöngumálum á Íslandi.

Nú er verið að fara svipaða leið. Hv. þingmaður ræddi hér um frumkvöðlastarf Sementsverksmiðjunnar og var það ekki Járnblendiverksmiðjan líka hvað varðar Hvalfjarðargöng? Nú höfum við frumkvöðla fyrir norðan, sem eru sveitarfélögin á svæðinu. Þau stofnuðu fyrirtækið Greið leið sem hefur unnið alla undirbúningsvinnuna og lögðu til að þessi leið yrði farin, einkaframkvæmdarleið, þar sem rukkuð yrðu veggjöld.

Er það ekki rétt munað hjá mér að hv. þingmaður hafi á kosningafundum fyrir norðan lýst yfir þeirri skoðun sinni að fara ætti í Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd? Hann gagnrýndi m.a. þann sem hér stendur fyrir að opna á það að verkið yrði unnið sem ríkisframkvæmd. Hv. þingmaður spurði mig þá hvort ég héldi að peningarnir kæmu af himnum ofan og þess vegna ætti að fara í Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd.

Virðulegur forseti. Ég segi það enn og aftur að ekki er samhljómur á milli þingmanna Vinstri grænna, einn talar í suður og annar talar í austur.