135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[01:03]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Lá það ekki ljóst fyrir fyrir síðustu kosningar, þegar hæstv. samgönguráðherra var að ræða um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng, að þau mundu kosta einhverja peninga? Kemur það honum á óvart núna, hæstv. ráðherra, að með því að hafa göngin gjaldfrjáls hefði það kannski þýtt aukin útgjöld eins og hann nefndi hér áðan?

Á framboðsfundi á Akureyri sem var tekinn upp, sýndur í sjónvarpsstöð fyrir norðan og er enn aðgengilegur á netinu — og það er hægt að horfa á hann þar. Þar komu allir frambjóðendur í Norðausturkjördæmi, í efstu sætum úr öllum flokkum, fram og ræddu þau mál sem brýn voru í kjördæminu, m.a. samgöngumál og m.a. Vaðlaheiðargöng. Þar var Kristján L. Möller, hæstv. samgönguráðherra, einn á báti í umræðu sinni um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng, (Gripið fram í.) það var nú bara svo einfalt. (Gripið fram í.)

Forseti, má ég biðja þig um að biðja samgönguráðherra að hafa hljótt um sig meðan ég tala?

(Forseti (StB): Forseti telur mikils virði að hv. þingmenn fái frið til þess að tala.)

Forseti. Allir frambjóðendur aðrir en Kristján Möller töluðu af ábyrgð um þá framkvæmd sem ætlunin var að fara í varðandi Vaðlaheiðargöng. Hann var þar einn á báti með sitt eilífa loforð um gjaldfrjáls göng í gegnum Vaðlaheiði sem ætti að byrja á strax haustið eftir kosningar — en þá var hæstv. samgönguráðherra sjálfur komin til valda. Um það er ég einfaldlega að spyrja: Kannast hann ekkert við það? Kannast hæstv. samgönguráðherra ekki við að hafa sagt slíkt og hvers vegna gengst hæstv. samgönguráðherra ekki við orðum sínum (Forseti hringir.) sem liggja þó ljós fyrir, öllum aðgengileg?