135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

umferðarlög.

579. mál
[01:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er fyrst og fremst tillaga um aðgerðir í öryggismálum, til að auka öryggi vegfarenda í umferðinni. Eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur er full ástæða til að grípa til aðgerða í því skyni.

Fram kemur í frumvarpinu að um 25 þúsund ökutæki séu óskráð, eða u.þ.b. tíunda hvert ökutæki. Það er býsna hátt hlutfall og færir rök fyrir því að full ástæða er til að grípa til aðgerða til að fækka óskráðum ökutækjum, koma þeim úr umferð og draga úr hættu sem af þeim stafar.

Ég spyr hæstv. ráðherra um það gjald sem ætlunin er að taka upp, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér í frumvarpstextanum að gjaldið eigi að innheimta í hvert sinn sem vanrækt er að færa ökutæki til skoðunar, sem þýðir að unnt sé að innheimta meira en eitt gjald af sama ökutæki ef það dregst lengi að færa það til skoðunar. Það er mikilvægt að hafa lagaákvæðin skýr í þeim efnum þannig að þeir sem vanrækja að færa ökutækin til skoðunar geti örugglega ekki komið sér undan sektargreiðslum af þessu tagi með því að draga það mjög lengi. Ég held að það ætti þá fremur að vera skýrt á hinn veginn að gjaldið muni frekar hækka með vaxandi vanrækslu.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að Vestfjarðanefnd hafi lagt til að þetta gjald verði tekið upp og að sýslumanninum í Bolungarvík verði falið að annast innheimtu þess og eftirfylgni með því að óskoðuð ökutæki verði færð til skoðunar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, til þess að taka af allan vafa um hvort það sé ekki rétt skilið að hann muni leggja það til, verði frumvarpið samþykkt, að sýslumanninum verði falið þetta verkefni eins og gefið er í skyn í greinargerðinni.

Að öðru leyti er ekki ástæða til að fjölyrða um efni frumvarpsins. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem fram kom í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, eins og t.d. að skoða það að flýta gildistöku frumvarpsins, en ég vil lýsa yfir stuðningi við málið, virðulegi forseti.