135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

umferðarlög.

579. mál
[01:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afdráttarlausan stuðning við frumvarpið sem hér er sett fram. Hann spurði mig einnar spurningar. Svarið við henni er einfaldlega: Jú.

Við höfðum tvo kosti hvað varðar þetta mál, þennan fjölda óskoðaðra ökutækja, þ.e. að bíða eftir heildarendurskoðun á umferðarlögum sem er í gangi — kannski kemur það á vorþingi 2009, kannski ekki fyrr en fyrir jól 2009 — og það vildum við einfaldlega ekki gera. Þess vegna er frumvarpið tekið fyrir núna eitt og sér til þess að koma þessu fyrr í gagn, bíða ekki eftir heildarendurskoðuninni heldur sýna strax alvöru málsins, hvernig við lítum á þetta.

Það að gjaldheimtan byrji ekki fyrr en 1. janúar nk. í staðinn fyrir 1. júní eða eitthvað annað — það þótti eðlilegt að gefa þennan aðlögunartíma en þó ekki aðlögunartíma vegna þess að hugmynd okkar er að auglýsa það mjög vel gagnvart óskoðuðum ökutækjum og umráðamönnum þeirra að fara með bifreiðarnar sem fyrst til skoðunar vegna þess að þá komist þeir hjá þessu gjaldi.

Það má líka segja, virðulegur forseti, að ekki er meiningin með frumvarpinu að búa til einhvern mikinn og góðan gjaldstofn og rukka þessi gjöld, vonandi þarf ekki að rukka neitt af þeim. Megintilgangurinn er að vekja athygli almennings á því að fara með bifreiðar sínar til skoðunar á réttum tíma og trassaskapur hvað það varðar geti varðað þeirri gjaldheimtu og þeim sektum sem hér er lagt til. Ég hef þá trú og von að þegar umræða um þetta er hafin, og hún verður vonandi meiri, fari þeir sem hafa ekki miða sem sýnir að búið sé að skoða ökutækið sem fyrst með bifreiðina til skoðunar.