135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

umferðarlög.

579. mál
[01:32]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott að hæstv. ráðherra sá ekki ástæðu til þess að bíða eftir heildarendurskoðun umferðarlaga áður en þetta mál er hér lagt fram. Það er í sjálfu sér mjög gott að það er komið fram. Ég lýsi hins vegar endurtekið yfir vonbrigðum með að tækifærið skuli ekki notað og þessir bílar teknir úr umferð skipulega fyrir sumarið þegar umferðin er mest í júlí og ágúst.

Ég verð að segja, herra forseti: Þetta er hænufet. Hænufet mjaka mönnum jú áfram en það er betra og það er brýnt í þessu máli að stíga skrefið til fulls. Ég sé ekki að neitt í máli ráðherrans skýri þann drátt sem lagður er til á gildistökunni. Það er ekkert sem kallar á það að láta menn hafa einhvers konar aðlögunartíma upp á sjö mánuði í þessu efni. Það er kominn tími til að taka á þessu og koma þessum bílum af götunum, því fyrr því betra.