135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

lögreglu- og tollstjóraembættið á Suðurnesjum.

[15:06]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil minnast á stórt mál sem deilur hafa verið um, þ.e. lögreglu- og tollstjóraembættið á Suðurnesjum, sem einn mikilvægasta lið í vörnum Íslands. Við hv. þm. Bjarni Harðarson stóðum fyrir fundi á Suðurnesjum, mjög fjölmennum fundi, um 100 manns, og mikil eindrægni ríkti þar. Fólkinu suður frá og reyndar þjóðinni allri þykir þetta einhver skrýtnasta deila sem hefur komið upp við eitt mikilvægasta lögreglulið landsins sem stendur við höfuðdyr Íslands og hefur náð miklum árangri, bæði í að ná fíkniefnum og taka glæpalýð, þannig að hin miklu og góðu störf hafa vakið athygli. Nú geisa deilur um framtíð þessa embættis innan stjórnarflokkanna og niðurstaða þessa fundar var ályktun sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á fundinum, áskorun til hæstv. forsætisráðherra svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Opinn borgarafundur, haldinn á Ránni í Reykjanesbæ 17. apríl 2008, skorar á forsætisráðherra, Geir H. Haarde að höggva á þann hnút og deilur sem nú eru uppi um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum.

Fundurinn telur að ekki sé skynsamlegt að hrapa að breytingum og uppstokkun á embættinu því sameinað lögreglu- og tollstjóraembætti hefur náð miklum árangri.

Nú þegar er landsmönnum misboðið að fylgjast með þessum deilum sem veikja varnir Íslands.“

Nú liggur fyrir að annar stjórnarflokkurinn situr með frumvarp sem ríkisstjórnin hafði samþykkt fast hjá sér og það eru litlar líkur á því að deilur milli ráðherra hvað þetta varðar, á milli stjórnarflokkanna, séu að leysast. Þetta veikir og veldur mikilli óánægju hjá starfsfólkinu og reyndar hjá öllum Íslendingum. Þess vegna finnst mér mjög eðlileg niðurstaða sem þarna kom fram, að menn treysta því að hæstv. forsætisráðherra beri í rauninni skylda til þess við svona aðstæður að höggva á þennan hnút.