135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

breytingar á starfsemi Landspítalans.

[15:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki endilega besta hugmyndin, en ég spyr: Getur þessi hugmynd orðið að veruleika? Hæstv. forsætisráðherra segist hafa heyrt eftir lækningaforstjóra á sjúkrahúsinu að vel kæmi til álita að gera Landspítalann að hlutafélagi. Ég var að lesa hér upp úr tilvitnun í Vilhjálm Egilsson sem er formaður í nefnd sem formlega hefur verið falið að gera tillögur um þessi efni.

Ég vek athygli á því að Vilhjálmur Egilsson, sá ágæti maður, var fyrr á tíð framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, núna Samtaka atvinnulífsins. Bæði þessi samtök hafa einkavæðingu velferðarþjónustunnar á sinni dagskrá.

Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra álit Samfylkingarinnar um þetta efni, en það kemur út á eitt, formaður Sjálfstæðisflokksins talar fyrir báða flokka þegar heilbrigðismálin eru annars vegar, Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu. Því miður.

Ég vek athygli þingheims á því að hæstv. forsætisráðherra neitar að svara því afdráttarlaust (Forseti hringir.) hvort til greina komi að gera Landspítalann að hlutafélagi.