135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Evrópumál.

[15:27]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það var rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir las upp úr stjórnarsáttmálanum um að það ætti að skipa nefnd sem þegar hefur verið komið á laggirnar sem ætti að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.

Þessi nefnd hefur verið skipuð. Það er nokkurt jafnræði með flokkum í nefndinni. Allir þingflokkar skipa einn fulltrúa, þar fyrir utan er einn fulltrúi frá utanríkisráðherra og annar frá forsætisráðherra. Síðan eru fjórir aðilar frá ýmsum hagsmunaaðilum, viðskiptalífi, Samtökum atvinnulífsins, ASÍ og opinberum starfsmönnum. Þessi nefnd hefur ekki fengið neitt mjög stífa forskrift. Það er hennar að leggja þetta mat á hagsmunina. Við höfum falið henni það verkefni og hún hefur líka um það nokkuð frjálsar hendur með hvaða hætti hún stendur að þessu og hvernig hún skilar af sér.

Hvort hún gerir það með einhverjum áfangaskýrslum og tillögum til ríkisstjórnar eða Alþingis er henni nokkuð í sjálfsvald sett. Ég held að við verðum bara að gefa þessari nefnd ákveðið svigrúm til að fara af stað. Það er rétt nýbúið að skipa hana og ég geri ráð fyrir því að hún sé að leggja niður fyrir sér hvernig hún ætli að vinna. Ég tel eðlilegt að hún fái þetta svigrúm til að vinna þetta mál.