135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að það er verulegur munur á spá fjármálaráðuneytisins og spá Seðlabankans og það þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það. Þessar tvær stofnanir byggja á mismunandi þjóðhagslíkönum. Þjóðhagslíkan fjármálaráðuneytisins, svokallað Icemod-líkan, er líkanið sem Þjóðhagsstofnun notaði á árum áður og var þróað þar og byggist á tölum á ársgrundvelli. Þjóðhagslíkan Seðlabankans er svokallað QMM-líkan sem er miklu minna en byggir á ársfjórðungslegum tölum og það kann að vera ástæðan fyrir því að niðurstöður úr þeim spám eru að öllu jöfnu sveiflukenndari en úr þeim spám sem byggðar eru á gamla Icemod-líkaninu.

Það er algjörlega ástæðulaust fyrir hv. þingmann að reyna að gera það eitthvað tortryggilegt þó að það séu mismunandi niðurstöður og gera því skóna að einhverjar pólitískar línur séu lagðar fyrir hagfræðinga í þessum stofnunum um hver niðurstaðan eigi að vera. Ég ligg ekki yfir hagfræðingunum meðan þeir vinna áætlanir sínar og þær eru frá þeim komnar án ritskoðunar frá mér. Ég geri svo sannarlega ráð fyrir að hið sama eigi við um spá Seðlabankans, að þær niðurstöður séu frá hagfræðingunum komnar án þess að bankastjórar Seðlabankans hafi ritskoðað þær á nokkurn hátt.

Hins vegar er ljóst að sá þáttur sem sennilega hefur mest áhrif til þess að um mismunandi niðurstöður er að ræða er þróun gengisins og einnig það hvernig breytingar sem gert er ráð fyrir í báðum spánum koma fram í tíma. Ég tók sérstaklega eftir því að þegar hv. þingmaður bar saman hagvöxtinn eftir árum nefndi hann ekki árið 2008 en þar er einnig mjög mikið frávik, þá í hina áttina, þá er það Seðlabankinn sem spáir meiri hagvexti og umtalsvert meiri hagvexti en fjármálaráðuneytið.

Ég verð eiginlega að spyrja hv. þingmann þó að það sé kannski ekki vaninn í þessum umræðum: Af hverju sleppti hann árinu 2008? Af hverju sagði hann ekki frá því líka í ræðunni þegar hann fór annars svona skilmerkilega yfir þessar tölur og mismuninn þar á milli?

Ég held, herra forseti, að það sé ekkert að í þessum efnum. Við mundum ekkert bæta okkur með því að fara aftur í tímann til tíma Þjóðhagsstofnunar, eins góð og hún reyndar var. Það eru miklu fleiri aðilar núna sem koma að því að vinna þjóðhagsspár, bæði innlendir og erlendir, og við erum í allt annarri og betri stöðu en við vorum þá þar þess vegna, höfum miklu meiri upplýsingar en áður.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort þjóðhagshorfurnar séu ásættanlegar. Því er til að svara að horfurnar hafa breyst að undanförnu, þær eru áfram að breytast og samt sem áður í takt. Þær eru heldur neikvæðari núna en þær voru í janúarspánni en þær eru í takt við það að við gerðum ráð fyrir að þær mundu ganga niður í efnahagsmálunum hjá okkur. Horfurnar, eru þær ásættanlegar eða ekki? Ég tel að við þurfum að vinna í því að þær batni og ég tel að í meginatriðum séu tvær aðferðir til þess. Við þurfum að verja stöðu ríkissjóðs og styrkja stöðu útflutningsveganna, vera tilbúin til að taka við frekari erlendum fjárfestingum sem síðar munu leiða til frekari útflutningstekna. Það eru í meginatriðum þær aðgerðir sem við þurfum að fara í.

Hv. þingmaður minntist líka á að það væri verið að gera aðgerðir víða um heim. Mér finnst ágætt að hann gerði það, það bendir til þess að þrátt fyrir að það komi ekki fram í ræðu hans geri hann sér að einhverju leyti grein fyrir því að sá vandi sem við eigum við að etja eigi sér rætur annars staðar en á Íslandi. Hann nefndi sérstaklega til Englandsbanka en svipaðar aðgerðir og þar hafa verið gerðar síðustu sólarhringana hafa verið gerðar hér í Seðlabankanum til að bæta lausafjárstöðuna.

Ég held að sú tortryggni sem hv. þingmaður er að reyna að byggja upp með málflutningi sínum sé einmitt í anda þess sem hæstv. forsætisráðherra varaði við, (Forseti hringir.) að umræða á þeim nótum sem hv. þingmaður er með hérna er síst til þess fallin að hjálpa okkur til að leysa úr þeirri snúnu stöðu sem við vissulega erum í í dag. (Gripið fram í.)