135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:52]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég er ekkert sérstaklega sannfærður um að það væri eitthvert trúverðugleikamerki að bæði Seðlabanki og fjármálaráðuneyti skiluðu nákvæmlega eins þjóðhagsspám. Það segði mér það eitt að þau væru með eins líkan. Það er heldur ekki slæmt að það komi nokkuð ólíkar spár vegna þess að það þýðir að þær kalla fram umræðu um það í hverju munurinn felst og þannig getum við fært okkur nær því sem einhver sannleikur kannski er fólginn í. Ég bendi á ágæta grein eftir Ásgeir Daníelsson sem birtist í Peningamálum þar sem hann fjallar um skekkjur í spálíkönum og kemst m.a. að þeirri niðurstöðu — og það ætti þá að gleðja þá sem kannski hafa mestar áhyggjur af því að hagvöxtur verði lítill — að bæði í gamla þjóðhagsstofnunarlíkanið sem nú er notað af fjármálaráðuneytinu og einnig hjá Seðlabankanum virðist vera innbyggt ákveðið vanmat á mögulegum hagvexti, þ.e. að menn hafi kerfisbundið mælt hagvöxtinn minni en hann raunverulega varð. Það ættu að vera ágætar fréttir við núverandi aðstæður.

Hvað varðar trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í þessum málum bendi ég á að það er sitthvað að tala um efnahagsaðgerðir við þessar aðstæður sem við fáumst við núna og t.d. hefðbundinn vanda sem við Íslendingar þekkjum svo vel, að bregðast við aflasamdrætti og annarri slíkri óáran, vegna þess að eðli ýmissa þeirra aðgerða sem þarf að grípa til við þessar aðstæður er einmitt það að menn geta ekki tilkynnt þær fyrir fram og verða raunverulega að grípa til þeirra þegar þeir eru tilbúnir. Það er munurinn á þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir sem á sér rætur fyrst og fremst erlendis, og á fjármálamarkaði, að menn verða að haga orðum sínum af mikilli gætni og mikilli varúð til að tryggja það að gera ekki erfitt ástand verra með einhvers konar galgopaskap eða yfir-yfirlýsingum þar sem menn lofa upp í ermina á sér hlutum sem ekki er hægt að standa við. Það er meginatriðið og ég lýsi (Forseti hringir.) yfir fullu trausti á bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hvernig þeir hafa haldið á þessum málum hingað til. (Gripið fram í: Hvað með utanríkisráðherra?)