135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[16:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er dálítið sérkennileg umræða að það sé ekkert að því og jafnvel bara gott að mat þessara máttarstólpa í hagstjórn, Seðlabanka og fjármálaráðuneytis, sé eins gjörólíkt og raun ber vitni. Það skapi bara umræður og sé frísklegt. Kannski væri betra að þeir væru enn þá meira ósammála og þá yrði enn þá meiri umræða — eða hvað?

Ég hafna svona rugli. Halda menn að það auðveldi þessum aðilum að ná saman um vitrænar ráðstafanir að þeir meta hlutina sem svona gjörólíkum hætti? Það er hægt að útskýra einhver frávik í spám en það er ekki sérstaklega trúverðugt þegar annar beinlínis spáir í austur og hinn í vestur. Ég er fyrst og fremst að kvarta yfir því hversu ólíkar spárnar eru í grundvallaratriðum og má ég þá minna á að Seðlabankinn telur miklu meiri hættu á að verðbólgu sé vanspáð en ofspáð á þessu tímabili. Það er eðlilegt að Seðlabankinn spái meiri hagvexti á þessu ári, hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að hann spáir mun meiri verðbólgu, viðskiptahalla og þenslu. Það þarf ekki að taka það fram að þannig hlýtur frávikið að vera.

Svör hæstv. ráðherra varðandi þjóðhagshorfurnar og hvað bæri að gera voru fátækleg eins og við var að búast frá þessari ríkisstjórn. Tvennt kom þó upp úr hæstv. ráðherra, að passa upp á ríkissjóð og meiri álver. Meiri álver, álver, álver. Það er það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug eins og venjulega. Það er bara nýr skammtur, nýr afréttari. Meiri stóriðju. Að vísu er svo sagt að það kunni að reyna að þanþol efnahagslífsins en Seðlabankinn hækkar þá bara vexti, stendur hér í rammagrein I í spá fjármálaráðuneytisins.

Lokaorð hæstv. ráðherra voru hrokafull ónot í garð undirritaðs og ekki ný af nálinni. Ég á þá sjálfsagt öðrum mönnum fremur að taka til mín ummæli ráðherranna um að það eigi ekki að ræða um efnahagsvandann. Þeim verður ekki að ósk sinni. Því sá er munurinn að við höfum ekki bara rætt um vandann undanfarna mánuði, við höfum lagt (Forseti hringir.) fram tillögur um aðgerðir, fyrst flokka og lengi vel ein. Það væri betur að hæstv. ríkisstjórn væri með einhverju sambærilegu lífsmarki.