135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:06]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (frh.):

Frú forseti. Ég held nú áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni síðastliðinn fimmtudag. Þá vantaði klukkuna eina mínútu í tólf svo því sé haldið til haga. Mér finnst samt miður að umræðunni skyldi frestað vegna þess að þetta er umræða sem margir í þjóðfélaginu, sérstaklega í háskólasamfélaginu, hafa mikinn áhuga á og vonandi verður það ekki til tjóns að slíta svona umræðuna í sundur.

Ekki þarf að eyða mörgum orðum um mikilvægi háskólanáms. Í raun tel ég að það að við Íslendingar eigum fjölbreytta og öfluga háskóla sé grunnurinn að því að hér á landi mælast lífskjör best í heiminum. Það þarf því að efla og styrkja háskólana okkar með ráðum og dáð þannig að þeir verði áfram grunnur að velsæld og velmegun í þjóðfélagi okkar.

Í umræðunni sem fór fram á fimmtudaginn eins og ég minntist á áðan var vikið að Háskóla Íslands og mikilvægi hans fyrir íslenskt samfélag. Ég tek undir það en vil um leið benda á mikilvægi Háskólans á Akureyri auk annarra háskóla sem munu væntanlega heyra undir lögin bráðlega og hafa vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum. Háskólinn á Akureyri hefur vaxið mjög mikið og það hefur hann gert þrátt fyrir oft og tíðum bága fjárhagsstöðu. Það má kannski segja að kraftur og dugnaður kennara og starfsmanna hafi gert skólann að því sem hann er í dag og ef hann fær áfram stuðning stjórnvalda, sem ég veit að er mikill vilji til, getur hann í mínum huga náð þeim standard að verða nefndur í sömu andrá og háskólarnir í Lundi og Uppsölum í Svíþjóð og í Tromsö í Noregi. Til að mynda fagna ég því sérstaklega að tekin hefur verið upp kennsla í heimskautarétti við lagadeildina sem sýnir kannski sérstöðu háskólans.

Frumvarp það sem hér hefur verið lagt fram er í mínum huga mun stærra en blaðsíðufjöldi þess gefur til kynna. Í því er á margan hátt verið að breyta rekstrarumhverfi opinberu háskólanna og þeim strúktúr sem háskólarnir á Íslandi hafa hingað til byggst upp á. Fyrsta spurningin er samt hvort þörf sé á frumvarpinu, hvort hægt hefði verið að ná fram sömu markmiðum með breytingum á núgildandi lögum um opinberu háskólana. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að um skólana verða að gilda lög sett frá Alþingi. Ég geri mér líka grein fyrir því að sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands kallar á lagabreytingar svo sameiningin geti orðið að veruleika, sameining sem ég tel að sé mjög jákvæð. Við Íslendingar erum svo heppin að eiga fjölbreytta flóru góðra háskóla, hvort sem þeir eru opinberir eða einkareknir, en ég sé tilhneigingu í þessu frumvarpi til að steypa opinberu háskólana í sama mót. Ég tel að það sé röng stefna og velti því fyrir mér hvort hægt hefði verið að ná fram sömu markmiðum með lagasetningu á einhvern annan hátt, kannski með því að breyta núgildandi lögum og ná þá því markmiði fram að viðhalda og styrkja sérstöðu háskólanna okkar í stað þess að gera þá einsleitari.

Önnur spurning sem vaknar er tímasetning á framlagningu frumvarpsins. Lögin eiga samkvæmt því að taka gildi 1. júlí næstkomandi eða eftir rúma tvo mánuði. Um leið og frumvarpið verður til umfjöllunar á þinginu sem nú lifa eftir, ef ég tel rétt, aðeins 15 þingfundadagar, þá eru um leið til umfjöllunar í menntamálanefnd einhver viðamestu frumvörp sem komið hafa frá menntamálaráðuneytinu í langan tíma, um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla landsins. Mikil vinna hefur verið innt af hendi af hálfu menntamálanefndar og sú vinna mun halda áfram til loka þessa þings. Ég held að betra hefði verið í ljósi mikilvægis frumvarpsins að bíða með það og fá fram sjónarmið til að mynda háskólasamfélagsins í stað þess að keyra það í gegn með því offorsi sem mér finnst fara fram. Það er einmitt stærsti gallinn á frumvarpinu að við samningu þess var á engan hátt haft samráð við stúdentaráð eða nemendur opinberu háskólanna. Stúdentar hafa hingað til verið afar virkir í þjóðfélagsumræðunni og sá hópur sem hefur haft hvað mest áhrif á framþróun háskólanáms á Íslandi. Ég harma að slík vinnubrögð skuli hafa verið viðhöfð. Það vekur líka upp þær spurningar hvort staðið hafi verið nægilega vel að undirbúningi frumvarpsins. Ég held að hæstv. menntamálaráðherra verði að útskýra það fyrir stúdentum af hverju þetta samráðsleysi stafaði.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram á blaðsíðu 10 að tilgangur með framlagningu þess sé m.a. að einfalda þau lagaskilyrði sem gilda um starfsemi Háskóla Íslands með það fyrir augum að veita háskólum sem mest sjálfstæði í innri málefnum. Á það bæði við um skipulag og fagleg málefni. Þessi markmið eru góð og gild en það er einkum tvennt í frumvarpinu sem gengur í berhögg við þessi markmið laganna og endurspeglast í bæði 6. og 24. gr. frumvarpsins. Í 6. gr. frumvarpsins kemur fram að til standi að fækka fulltrúum stúdenta í háskólaráði. Í greininni kemur fram að rektor muni áfram eiga sæti í háskólaráði. Einn fulltrúi verði valinn samkvæmt ákvörðun háskólafundar. Einn fulltrúi verði valinn af heildarsamtökum nemenda við háskólann sem er þá fækkun á fulltrúum nemenda í ráðinu. Tveir fulltrúar verði valdir af menntamálaráðherra. Þessir fimm munu svo velja saman tvo fulltrúa til viðbótar í ráðið.

Ég tel að fækkun stúdenta í háskólaráði muni skerða mikið sjálfstæði opinberu háskólanna í innri málefnum og gangi því gegn markmiði laganna. Við megum ekki gleyma því að ein af ástæðum þess að við eigum öfluga háskóla er sú að nemendur hafa átt dugmikla fulltrúa í háskólaráði og rödd þeirra og sjónarmið hafa átt mikinn þátt í mótun háskóla landsins. Ég er sannfærður um að aðkoma stúdenta sé miklu betur til þess fallin að auka sjálfstæði í innri málefnum opinberu háskólanna og auka þar skilvirkni og skipulag en aðkoma einhverra óskilgreindra utanaðkomandi aðila.

Ég vil einnig benda á að áður hefur verið borin upp tillaga í Háskóla Íslands um að fækka fulltrúum stúdenta í háskólaráði en sem betur fer var horfið frá þeirri tillögu eftir mikla umræðu. Þetta frumvarp virðir algerlega að vettugi tillögur háskólasamfélagsins um að hafa þennan fjölda nemenda í háskólaráði og virðir þá að vettugi tillögurnar sem samþykktar voru á háskólafundi og háskólaráði.

Í öðru lagi vil ég benda á að í 6. gr. er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra geti valið tvo utanaðkomandi aðila í háskólaráð. Þessir tveir aðilar munu svo ásamt rektor, fulltrúa háskólasamfélagsins og einum fulltrúa kjósa tvo fulltrúa í viðbót í ráðið. Þetta þýðir í rauninni að tveir fulltrúar menntamálaráðuneytisins geta með einu atkvæði í viðbót valið sér tvo fulltrúa og myndað hreinan meiri hluta. Þetta tel ég ekki til þess fallið að auka sjálfstæði háskólans.

Það eykur líka áhyggjur mínar og kannski hvað einna mest, og tengist þessum fyrirhuguðu breytingum á háskólaráði, að í 24. gr. frumvarpsins er lagt til að háskólaráð geti gert tillögu til ráðherra um breytingu á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda. Í athugasemdum við 24. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði 24. gr. frumvarpsins, sem fjallar um fjárhagsmálefni, fela ekki í sér grundvallarbreytingar á gjaldtökuheimildum háskóla en þó er beinlínis gert ráð fyrir að einstakir háskólar geri tillögu til ráðherra um fjárhæð skrásetningargjalda.“

Ég óttast að þessi breyting leiði til þess að háskólaráð neyðist vegna lítils fjármagns sem opinberu háskólarnir hafa á að skipa að óska eftir hækkun á skráningargjöldunum. Vissulega hefur háskólaráð hingað til haft stöðuga heimild til að óska eftir slíkri hækkun en ég vara við því og tel gagnrýnivert að ráðinu sé veitt lögformlegt leyfi til að óska eftir slíkri hækkun og má kannski segja að það sé hvati til að óska eftir hækkun. Ég tel einsýnt að með þessari breytingu ásamt breytingunni á skipan háskólaráðs, sem ég minntist á áðan, sé háskólaráði er ætlað að vera leiðandi í gjaldhækkunum á stúdenta framvegis.

Vandamálið við hækkun skrásetningargjalda er fyrst og fremst það að þar endurspeglast skökk samkeppnisstaða opinberu háskólanna. Hækkunin mun hafa verri áhrif fyrir stúdenta en til að mynda upptaka skólagjalda. Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar nefnilega fyrir skólagjöldum en ekki skrásetningargjöldum. Ríkið kemur svo til móts við þá sem taka lán fyrir skólagjöldum í formi styrkja og þar með greiðir ríkið meiri peninga með stúdentum sem ganga í einkarekna skóla en þeim sem ganga í opinbera skóla. Ég ætla samt ekki að eyða meiri tíma í þá umræðu en ég mun biðja um utandagskrárumræðu um þessa ósanngjörnu samkeppnisstöðu opinberu háskólanna.

Ég sé að tími minn er senn á enda. Ég vil samt taka fram vegna þess að formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, kom hér inn á hina svokölluðu skólagjaldaumræðu að í mínum huga og Framsóknarflokksins er alveg skýrt að markmið okkar ágæta skólakerfis má aldrei vera fjárhagslegt, (Forseti hringir.) það á að vera fyrir alla óháð efnahag og búsetu. Það er skýr stefna. En mér gefst væntanlega tími til að fjalla frekar um þessi (Forseti hringir.) málefni þegar frumvarpinu verður vísað til menntamálanefndar.