135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:47]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sitt er hvað stefna eða stefnufesta. Mér er ljóst, eftir að hafa hlýtt á hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, hver landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar er um málið. Ég vildi gjarnan sjá að við hana yrði staðið til hins ýtrasta í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Ég minni um á leið á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt á sínum landsfundi að taka eigi upp skólagjöld. Nú mætast þessi ólíku sjónarmið og þá kemur að því hver stefnufestan er. Ég hvet Samfylkinguna eindregið til þess að standa fast á sínu. Hún mun eiga stuðning okkar í Vinstri grænum hvað það varðar að gæta að því að skólagjöld verði ekki tekin upp.

Ég er sammála hv. þingmanni um orðalagið í 24. gr., ég tel það algjörlega óþarft nema ef meiningin er með einhverjum hætti að opna á skólagjöldin. Ég segi því: Við skulum sameinast um það í vinnu þingsins, í nefndinni, að taka út (Forseti hringir.) svona skafanka þannig að þeir þurfi ekki að vera að þvælast fyrir okkur.