135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni athyglisverða ræðu og vandaða, sérstaklega tölulegar upplýsingar sem þar komu fram. Það verður fengur að þeim fyrir menntamálanefnd þegar málið er komið til hennar. Það er sjálfsagt mál og eðlilegt að skoða nánar þá hluti sem hv. þingmaður getur um varðandi brotthvarf nemenda frá námi, brottfall og annað þess háttar. Ég er kannski ekki trúuð á að skólagjöldin ein séu alfa og omega í þeim efnum, ekki frekar en að ástæðan fyrir minna brottfalli hjá Háskólanum í Reykjavík sé sú að Háskóli Íslands geri meiri kröfur til nemenda sinna. Ekki eru einfaldar skýringar á þessum málum en athyglisvert verður að skoða það í nefndinni.

Hv. þingmaður kom inn á orðaskipti sem við áttum hér við fyrri umræðu um málið. Þá fjölluðum við um framlag til rannsókna og langar mig að vita í tilefni af orðum hv. þingmanns hvort hún telji eðlilegt að Háskólinn í Reykjavík, ungur háskóli sem hefur á undraskömmum tíma komið vel undir sig fótunum, eigi rétt á sambærilegu rannsóknarframlagi til allra greina sinna og Háskóli Íslands hefur náð á sínum 90 ára ferli?