135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:25]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samkeppni í vísindum er ólík samkeppni á markaði að því leyti að hún byggist á því að þeir sem fá fjármagn sýni fram á að styrkur þeirra sem vísindamanna sé þess eðlis að styðja beri við rannsóknir þeirra. Samkeppni um rannsóknarfjármuni í íslensku yrði aðallega á milli þeirra vísindamanna sem geta sýnt fram á að rannsóknir þeirra séu mikilvægar — og það er ekki flókið í vísindaakademíunni, alltaf er í gangi jafningjamat um hæfni hlutaðeigandi vísindamanns.

Það var fulllangt gengið að segja að ég vildi að allt fjármagn færi í samkeppnissjóði, það þarf að vera einhver grunnur til að byggja á. Ég tel líka að samræmi eigi að vera á milli skóla hvort sem þeir eru einkareknir eða ríkisreknir. Ef við Íslendingar viljum fjármagna rannsóknir eigum við ekki að horfa á það hvort viðkomandi skóli er einkarekinn eða rekinn af hinu opinbera.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það eigi að dreifa þessu. Það á að vera meira í samkeppnissjóðunum en í grunnframlaginu en grunnframlag á að vera til staðar. Við eigum að leggja fé í rannsóknir þeirra vísindamanna sem best kunna til verka en ekki horfa til rekstrarforms viðkomandi skóla.