135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:44]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég þakka fyrir hól og hrós frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Við erum sennilega sammála um þetta. Þetta er nú ekki skoðun sem ég hef tekið upp hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að henni að öðru leyti algjörlega ólastaðri, heldur hef ég haft þessa skoðun sjálfur og þar að auki tek ég mark á félögum mínum, meðal annars félögum mínum í ungum jafnaðarmönnum sem hafa gefið út sérstaka ályktun um þetta frumvarp og reyndar um ummæli eins tiltekins hv. þingmanns sem ég ætla ekki að nefna hér. Þar segja ungir jafnaðarmenn meðal annars, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu verður meiri hluti hvers háskólaráðs skipaður einstaklingum sem engin bein tengsl hafa við viðkomandi háskóla. Þá er það sérstakt áhyggjuefni að dregið verður úr áhrifum kennara og stúdenta í háskólaráðum opinberra háskóla en áhrif menntamálaráðuneytisins aukin að sama skapi. Gengur það þvert gegn yfirlýstu markmiði menntamálaráðherra með frumvarpinu, en þar kemur fram að auka eigi sjálfstæði háskólanna.“

Ég held að þessi ályktun, sem er lengri, sé eitt af þeim gögnum sem menntamálanefnd þarf að athuga þegar hún fjallar um þetta að mörgu leyti ágæta frumvarp um opinbera háskóla.

Síðan er það hitt sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hv. þingmenn hennar eru kannski að velta fyrir sér og það er að ekki skuli vera hér eitt hallelúja um öll stjórnarfrumvörp. Það er bara eins og það á að vera. Ég held að á fyrra kjörtímabili og fyrri kjörtímabilum höfum við lifað kannski við svolítið skekktar þinglegar venjur í því efni. Það voru stór tíðindi ef þingmenn stjórnarliðsins höfðu einhverjar smávægilegar athugasemdir við stjórnarfrumvörp. Sá tími er bara liðinn.