135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get tekið undir það. Eins og ég sagði áðan finnst mér eðlilegt að málin séu tekin til efnislegrar meðferðar á Alþingi. Ekki á að líta svo á að þótt frumvörp séu stjórnarfrumvörp megi ekki hrófla við nokkrum hlut í þeim. Það er eðlilegt að stjórnarfrumvörp séu rædd, menn taki við umsögnum, meti þær og breyti eftir atvikum. Það er bara jákvætt.

Hitt vakti athygli mína að hér hefur verið nokkur rimma, ef svo má segja, um hugsanlega innleiðingu skólagjalda í opinbera háskóla. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið gagnrýnd fyrir það af samfylkingarfólki að við gerum út á það og reynum jafnvel að koma því inn í umræðuna að fjallað sé um skólagjöld í frumvarpinu. Við höfum reynt að verjast því, reynt að færa fyrir því málefnaleg rök að það sé a.m.k. ekki alveg á hreinu hvað ætlast er fyrir með ákvæði 24. gr. Það var því athyglisvert þegar hv. þingmaður gerði einmitt í máli sínu athugasemdir við þessa sömu klásúlu og við mörg höfum gert athugasemd við í greinargerð með 24. gr. Mér sýnist hann sammála okkur um að þar sé það gefið í skyn og að klásúlan megi að ósekju fara út. Mér fannst það sama koma fram í máli annars þingmanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Vonandi getum við sammælst um að a.m.k. í nefndaráliti verði allur vafi tekinn af hvað það snertir að ekki sé verið að feta inn á braut skólagjalda.