135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það skiptir ekki máli hver er sammála hverjum, hver sagði hvað fyrst eða hvort pabbi minn er sterkari en pabbi þinn þúsund sinnum hvað sem þú segir. En það er rétt að við erum sennilega nokkuð sammála um að setningin í greinargerðinni á bak við b-lið 24. gr. er misheppnuð. Það er ekki einungis að ég efist um að það sé rétt sem þar stendur, eða það sé snjallt a.m.k., heldur benti ég líka á það, og er tilbúinn að gera það aftur, að í þessari efnisgrein í greinargerðinni er innri ósamkvæmni.

Annars vegar er undirstrikað, með frekar óíslenskulegu orðalagi, að um sé að ræða heimildir til töku þjónustugjalda sem ætlað er að mæta tilkostnaði sem hlýst af því veita umrædda þjónustu, fjarpróf, inntökupróf, upptökupróf og hvað þetta er nú. Hins vegar segir að rökin sem búi að baki byggist á því að rétt sé að virkja kostnaðarvitund og að gjöldin eigi að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða. Þessa passar ekki. Ef menn eru að tala um þjónustugjöld þá eru þau ósköp einfaldlega byggð á því hvað hlutirnir kosta. Ef við teljum — ég hef ekki gert það upp við mig — að taka eigi þjónustugjald fyrir inntökupróf eða upptökupróf eða hvað það nú er á það að byggjast á því hvað hlutirnir kosta. Slík gjaldtaka er ekki stjórntæki til eins eða neins annars og virkjar enga kostnaðarvitund sem menn vildu koma upp — ég tel reyndar, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, að engin þörf sé á því.