135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:20]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er ljúft og skylt að bregðast við þessum orðum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um þau orð sem hv. þm. Samfylkingarinnar Einar Már Sigurðarson, varaformaður menntamálanefndar viðhafði hér um þessi mál í síðustu viku. Mér finnst reyndar dálítið merkilegt að það sé það eina sem hún hafi að athuga við ræðu mína sem lýsir því kannski best hversu sammála við erum um þessi skólagjaldamál eins og ég ítrekaði að ég hefði getað tekið undir nánast allt það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns hér áðan um þau mál. Ég held að það sé ekkert langt á milli okkar í því.

Með leyfi forseta, segir hv. þm. Einar Már Sigurðarson, varaformaður menntamálanefndar, í umræðu á Alþingi í síðustu viku um störf þingsins:

„Ég vil leyfa mér að segja að því miður er ekki 100% jafnrétti til náms í dag vegna þess að við tökum skólagjöld nokkuð óskipulega í okkar kerfi.“

Hann gefur þar með í skyn að með skipulegum skólagjöldum megi auðvitað jafna stöðu skólanna. Það er varla hægt að skilja það öðruvísi.

Síðar segir hann í sinni ræðu, með leyfi forseta, þar sem hann er að velta fyrir sér hugsanlegum skólagjöldum:

„Við getum auðvitað velt upp þessum spurningum: Er eðlilegt að skólagjöld séu tekin af ýmsu námi t.d. á framhaldsskólastigi? ... Ég held að við þurfum að setja ramma utan um þetta mál og við eigum að nálgast það fordómalaust ...“

Hvað á hv. þingmaður við með að nálgast þetta fordómalaust annað en það að hann er að vísa til stefnu Samfylkingarinnar um að tryggja beri það að ekki verði tekin upp skólagjöld í opinberum háskólum? Það eru fordómarnir sem hann er að vitna til að mönnum beri að forðast.