135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:24]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Varðandi þau ummæli sem ég hafði eftir hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, varaformanni menntamálanefndar, og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir botnaði hér fyrir mig áðan þá setningu sem ég lauk ekki við þá segir hún og niðurlag þeirrar setningar dálítið mikið um skoðun hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar á þessu máli, með leyfi forseta:

„Ég held að við þurfum að setja ramma utan um þetta mál og við eigum að nálgast það fordómalaust með það sem grundvallaratriði að tryggja jafnrétti til náms.“

Hann er að tala um skólagjöld. Hann er að velta fyrir sér spurningunni um skólagjöld, hvort það eigi að taka upp skólagjöldin og að það eigi að gera það fordómalaust með það að grundvallaratriði að tryggja jafnrétti til náms.

Það er líka athyglisvert í þessu sambandi að kynna sér skoðun hv. formanns menntamálanefndar Alþingis Sigurðar Kára Kristjánssonar á ummælum formanns Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem vitnað er til, en þau nefnir hv. þingmaður á heimasíðu sinni eftir að hafa fjallað í löngu máli um afstöðu sína og útskýrt afstöðu sína til skólagjalda á háskólastigi þar sem hann kemur hreinn og beinn fram í sínum skoðunum. Hann vitnar í viðtal við formann Samfylkingarinnar og segir, með leyfi forseta:

„Ég fæ ekki betur séð en að í þessum orðum felist nokkur skilningur á þeim sjónarmiðum sem ég hef hér mælt fyrir og tek undir orð Ingibjargar Sólrúnar frá árinu 2004. Og ég finn ekki annað en að frá þeim tíma er viðtalið var tekið hafi skilningur á skólagjöldum á háskólastigi aukist innan Samfylkingarinnar.“

Það er hans mat að það hafi aukist innan Samfylkingarinnar og menn hljóta að finna það bara á umræðum innan nefndarinnar við aðra hv. þingmenn sem þar starfa innan stjórnarinnar.