135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar. Þær eru áhugaverðar. Þær staðfesta nokkurn veginn það sem ég þóttist muna, þ.e. að um helmingur af tekjum lánasjóðsins þurfi að koma í formi ríkisframlags til að mæta því sem er í raun og veru fólgið í lágum vöxtum, afskriftum lána, tekjutengdum endurgreiðslureglum, tilteknum tímamörkum og öllu þessu sem þýðir það mikla afskrift af lánunum að um helmingurinn kemur í reynd til baka.

Þar með erum við líka að segja að helmingur af skólagjöldum sé borgaður af ríkinu sjálfu í gegnum þetta endurgreiðsluverk og færi í tvo þriðju ef tekin yrðu upp sambærileg skólagjöld í opinberu háskólunum. Þá er þetta eiginlega að verða alveg að brandara ef menn reyna svo að segja að eina leiðin til að lyfta þessum skólum á hærra plan sé að þeir fái að taka skólagjöld sem að tveimur þriðju yrðu borguð af ríkinu sjálfu hvort sem er, væru skattpeningar. Þá er málið náttúrlega meira og minna komið í hring og orðið tóm endileysa.

Það sem menn þurfa að snúa sér að því að gera er að finna eðlilegan samstarfsgrunn fyrir háskóla sem tekur mið af því að sjálfstætt reknir háskólar, svokallaðir þó að þeir séu auðvitað borgaðir af ríkinu, taka skólagjöld í þó nokkrum mæli og það er ekki sanngjörn staða sem kemur upp ef þeir fá að vera einhvers konar forréttindaskólar og fá að fullu sömu fjárveitingar frá ríkinu plús skólagjöldin. Það er ósanngjörn samkeppnisstaða og aðrar þjóðir sem sumar hverjar búa við blandað kerfi af þessu tagi hafa farið þá leið að búa út tilteknar leiðréttingarformúlur, reynt að finna sanngjarnar leiðréttingarformúlur sem jafna þessi starfsskilyrði upp að vissu marki.

Þetta höfum við, vinstri græn, skoðað heilmikið í nokkur ár, m.a. og (Forseti hringir.) ekki síst fyrirkomulagið í Svíþjóð og höfum svona helst sótt okkur fyrirmyndir þangað um einhverja slíka reiknireglu.