135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:52]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns, það þarf að finna einhverja leiðréttingarreglu. En það er ekki bara út af því að skólagjöld eru lögð á nemendur í sjálfstæðu skólunum, heldur tel ég það líka mikilvægt vegna þess að Háskóli Íslands er eðlisólíkur þeim skólum sem eru kallaðir sjálfstæðir háskólar. Við gerum þær kröfur til Háskóla Íslands að hann kenni nánast allt sem til er undir sólinni. Við gerum til hans þá kröfu að hann sé með breitt námsframboð, í honum séu kenndar þjóðlegar greinar, íslenska og guðfræði, ýmsar greinar sem ekki eru kannski markaðsvænar ef svo mætti að orði komast og sem hinir sjálfstæðu skólar hafa frekar einbeitt sér að.

Af þeim ástæðum fagnaði ég mjög þegar hæstv. menntamálaráðherra gerði rannsóknarsamning við Háskóla Íslands. Þar var vísir að viðurkenningu á þessu breiða námsframboði Háskóla Íslands. Ég held að lausnin hjá okkur gæti frekar falist í því að ganga lengra í þeim efnum en gert var í þeim samningi og fara frekar slíkar leiðir.

Ég hef ekki verið sammála samþingmanni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem hefur haldið því hér fram að lausnin felist í því að skerða framlag til sjálfstæðu skólanna sem nemur þessum skólagjöldum. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að fara þá leið sem ég nefni hér, að viðurkenna þetta breiða námsframboð og viðurkenna að í öllu þessu námsframboði getur háskólinn aldrei mætt þeirri lágmarksstærð af hópum sem ætlast er til í reiknilíkaninu og því hefur farið sem farið hefur að menn þurfa að færa til peninga þar innan húss.