135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að það er fleira en skólagjöld sem þarf að hafa í huga, þar á meðal hlutverk og staða háskólanna. Háskóli Íslands er, eins og hv. þingmaður kallaði það, eðlisólíkur öðrum skólum um margt. Hann hefur mikla sérstöðu. Hann er einhvers konar flaggskip háskólamenntunar okkar og honum er ætlað að bera það að kenna ýmis fög sem við viljum að séu kennd í landinu og aðrir skólar sinna ekki eða hafa ekki áhuga á og er varla við að búast að sé nema á einum stað eins og málvísindi, rannsóknir í íslenskum fræðum og tungu og öðrum slíkum þjóðlegum fögum eða hvað það nú er.

Háskólinn á Akureyri hefur líka sérstöðu. Hann er eðlisólíkur öðrum stofnunum um margt. Hann er almennur háskóli á landsbyggðinni sem leggur metnað sinn í að taka mið af þeirri staðreynd í starfi. sínu, haga námi þannig, t.d. í kennaramenntun að þeir nemendur sem þaðan útskrifast séu vel undir það búnir að kenna við aðstæður á landsbyggðinni.

Og útkoman er glæsileg. Tilkoma Háskólans á Akureyri og kennaranámsins þar hefur verulega lyft upp hlutfalli réttindakennara á landsbyggðinni og það sýnir sig að nemendur útskrifaðir þaðan fara frekar í störf þar enda vel undir það búnir. Hann hefur sérstöðu um sjávarútvegsnám og fleira í þeim dúr og ekki síst í fjarkennslunni þar sem hann sérhæfir sig til þess að sinna þörfum dreifðra byggða þar sem fólk safnast í hópa og vill fá aðgang að háskólanámi í gegnum fjarnám og þá opnast möguleikar á að það geti það í staðinn fyrir að þurfa að bregða búi eða flytja sig til til að sækja námið.

Þetta eru aftur rök fyrir því sem ég hóf mál mitt á, þ.e. að þessir tveir háskólar séu sérgreindir í lögum upp að vissu marki vegna sérstöðu. Það getur aftur spilað inn í það (Forseti hringir.) sem við vorum svo að ræða um, þ.e. hvernig reikniformúlur eru stilltar af þegar þetta er allt saman metið.