135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:58]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hv. þingmanni Páli Nikolov fyrir góða ábendingu hér sem ég held að menntamálanefnd eigi að taka til greina.

Ég vil segja það í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa orðið í dag og hafa að nokkru staðið milli okkar hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur annars vegar og þingmanna VG hins vegar að við færumst nú mjög nær því að ná niðurstöðu eða einhvers konar tengingarbandi í þessum málum öllum. Til að signa það endanlega lýsi ég eiginlega stuðningi við tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um það að nefna þessa tvo háskóla sem hér eru sannarlega starfandi, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, í 1. gr. frumvarpsins. Mér finnst algjörlega eðlilegt að gera það og kæmi það þá í veg fyrir þá dellu sem hugsanlega gæti orðið í menntamálaráðuneytinu þó að það verði ekki undir setu núverandi hæstv. og ágæts menntamálaráðherra að menn leggi þessa skóla niður eða breyti þeim án samþykkis Alþingis.

Ég vil að vísu leiðrétta hv. þingmann með það að Háskóli Íslands komi hvergi annars staðar fyrir en í þessari grein ef þetta verður samþykkt. Hann kemur vissulega fyrir í lögum um sóknargjald þar sem okkur sem stöndum utan safnaða er skylt að borga í þann háskóla, en t.d. ekki til Háskólans á Akureyri eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur lagt fram tillögu — kannski ekki um en a.m.k. út af henni hér á þinginu.

Ég ætlaði að ræða um skólagjöld. Það hefur verið gert. Sú umræða vaknaði í undanfara þessa frumvarps. Við höfum haldið því fram, samfylkingarmenn, að við þurfum að ræða fordómalaust um jafnrétti til náms, um jafnræði eða jafnstöðu háskóla. Við höfum gert það vegna þess að staðan er sú núna að skólagjöld eru við lýði í einkareknum skólum og við höfum bent á það að ekki er jafnræði milli þessara einkareknu skóla að þessu leyti og síðan opinberu skólanna sem sést ágætlega á svari hæstv. menntamálaráðherra við fyrirspurn sem ég bar fram fyrr í vor þar sem fram kom að skólarnir njóta verulegs stuðnings af opinberu fé því að eins og hér kom fram er helmingurinn af lánum úr lánasjóðnum í raun styrkur.

Það verður líka að líta á í þessu sambandi að fyrir utan þau pólitísku rök sem samfylkingarmenn og fleiri hafa um að það eigi ekki að taka skólagjöld í öllum skólum, það eigi að vera opin, gjaldfrjáls leið í gegnum menntakerfið, vilja alls ekki allar deildir og raunar fæstar deildir í hinum opinberu skólum þessi skólagjöld. Þessi hugmynd er fyrst og fremst á kreiki í samkeppnisdeildunum en ekki hinum og menn þar segja að það mundi spilla fyrir starfi í þeim deildum að taka upp slík gjöld.

Það má líka draga það fram fyrir utan það sem hér var sagt áðan í ágætum samræðum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og Steingríms J. Sigfússonar að það kæmi nokkur svipur á ágæta skólamenn í útlöndum sem hingað til hafa tekið við nemendum án þess að heimta af þeim skólagjöld — sjálfur naut ég þeirrar velvildar bæði í Noregi og Frakklandi — ef Íslendingar færu að senda nemendur út í lönd sem þeir gera hundruðum saman, þúsundum þegar allt er tekið, og ætlast til þess að önnur lönd borgi þar fyrir þá skólavist þegar á Íslandi væru tekin skólagjöld.

Það er rétt hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að opinberu skólarnir gegna sérstöku hlutverki. Þeir eru kjarni menntasamfélagsins, hafa ákveðnar skyldur um námsframboð og rannsóknir sem einkareknu skólarnir, að þeim algjörlega ólöstuðum, hafa ekki. Að öllu samanlögðu er það ákveðið úrlausnarefni að hér ríkir ekki jafnstaða milli skólanna. Og ég er sammála hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um að okkur beri að kanna fyrst þá leið að bæta opinberu skólunum þetta upp með nokkurri rannsókn á því hver staðan er í ríkisframlagi með hverjum nemanda.

Ég vil ljúka þessari ræðu minni á tilvitnun í hæstv. menntamálaráðherra sem sagði í þessari umræðu, eða að minnsta kosti einhverri skyldri umræðu, þau ágætu orð að ekkert reiknilíkan væri heilagt. Ég held að við ættum að taka þessi (Forseti hringir.) reiknilíkön og breyta þeim í samræmi við þá stefnu sem í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) felst.