135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[19:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem farið hefur fram í þingsal um frumvarp um opinbera háskóla og þakka tóninn sem verið hefur sleginn. Flestir hafa sagt að í megindráttum telji þeir málið mikilvægt, að þetta sé mikilvægt frumvarp o.s.frv. Ég fagna þeim umræðum þó að ég muni í máli mínu fara stuttlega yfir þær athugasemdir og spurningar sem hefur verið beint til mín vegna þessa máls.

Það er rétt að draga það fram strax að þetta frumvarp snýst ekki um skólagjöld. Það er engin skólagjaldaheimild í þessu frumvarpi. Þetta frumvarp er samþykkt af báðum stjórnarflokkunum, af öllum ráðherrum í ríkisstjórn og það er engin skólagjaldaheimild í þessu, svo það sé á hreinu þannig að ekki sé verið að gefa út neinar misvísandi tilkynningar um það. Hins vegar er það frumvarp sem við ræðum hér algerlega í samhengi við þær breytingar sem við höfum staðið fyrir, þær gríðarlega miklu breytingar sem átt hafa sér stað á háskólasamfélaginu sem slíku. Allir háskólar landsins hafa eflst, bæði opinberir háskólar og einkareknir háskólar. Flestallir sem ég hef rætt við og þeir sem talað hafa um rammalöggjöfina svonefndu sem var samþykkt fyrir tveimur árum um háskóla, hafa fagnað því hvernig því máli lyktaði. Háskólarnir eru byrjaðir að vinna mjög ötullega eftir þeim ákvæðum öllum. Það voru allir sammála um þá aðferðafræði sem sett var fram þar. Sömu nefndinni var falið að semja það frumvarp sem við ræðum nú, hér er um sömu aðferðafræði að ræða. Rætt var við rektora háskólanna en aðrir sem málið snertir — og þeir eru náttúrlega mjög margir — höfðu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að, enda er alltaf mismunandi hvernig menn setja málin fram eða hver samráðsvettvangurinn er. Ég tel gríðarlega mikilvægt, og ég veit að hv. menntamálanefnd mun sinna því hlutverki mjög gaumgæfilega, að fá fram öll þau sjónarmið sem þetta mál snertir.

Ég undirstrika það sem kom síðast fram í orðum hv. þm. Marðar Árnasonar að það er rétt að reiknilíkanið varðandi háskólana er til endurskoðunar. Verið að endurskoða hvern reikniflokk fyrir sig. Verið er að skoða kostnað á bak við hvert fræðasvið fyrir sig, varðandi hjúkrunarfræðina og hugvísindin, varðandi læknisfræðina og mismunandi þætti. Það er verið að kryfja það mál allt til mergjar og endurskoða í samræmi við þær breytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, þannig að það sé upplýst hér.

Menn hafa spurt: Af hverju á að fara þessa leið? Af hverju á að setja sérlöggjöf? Það var ein af þeim spurningum sem sett var fram. Það er alveg ljóst að þegar rammalöggjöfin og rammalöggjafarfrumvarpið voru sett fram var líka tekið fram að það þyrfti sérstaklega að setja lög um opinberu háskólana þó að rammalöggjöfin nái að sjálfsögðu til opinberu háskólanna. Af hverju þurfa opinberu háskólarnir sérstök lög? Það er auðvitað vegna þess að stjórnsýsla ríkisins er lögbundin og ég gat um það í framsöguræðu minni. Í fyrsta lagi verða því allar heimildir til fjárhagsráðstafana í ríkisrekstri að byggjast á lögum. Þá er bæði um að ræða framlög til lögbundinnar starfsemi og eins fjáröflun til annarra verkefna. Það verður að vera skýr lagaheimild fyrir þessu, fyrir opinberu háskólana.

Í öðru lagi eru það ráðstafanir varðandi réttindi og skyldur starfsmanna og nemenda að hafa bæði heimild og stoð í lögum þegar snertir opinberu háskólana. Það verða að vera lagaheimildir fyrir þessu, ég held að það sé mikilvægt. Í þriðja lagi er við það miðað að megindrættirnir í skipulagi ríkisrekstrar séu ákvarðaðir af Alþingi, m.a. hvað varðar skipun yfirstjórnar opinberra stofnana og síðan hvernig fjárframlögum er dreift til viðkomandi stofnana. Ég tel því mikilvægt að aðgreiningin er þarna á milli opinberu háskólanna og einkaskólanna. Þess vegna þarf þessa löggjöf og eftir henni hafa háskólarektorar opinberu háskólanna einmitt verið að kalla. Þeir hafa verið að kalla nákvæmlega eftir þessu frumvarpi.

Varðandi skipan háskólaráðs annars vegar og 24. gr. um gjaldtökuheimildina hins vegar — um innritunargjöldin — hefur eftirfarandi verið rætt: Á háskólaráð að vera skipað að meiri hluta til af háskólafólki sem er starfandi innan háskólans eða ekki? Ég er þeirrar skoðunar að svo eigi ekki að vera og þess vegna birtist þetta hér og hefur ríkisstjórnin m.a. samþykkt það. Af hverju? Þetta er ekki bara úr lausu lofti gripið heldur er þetta almenn þróun, til að mynda á hinum Norðurlöndunum og er rétt að geta þess að í nýjum norrænum háskólalögum er ekki gert ráð fyrir rektor eða aðstoðarrektor. Það var mikil umræða um það innan nefndarinnar og við veltum því síðar fyrir okkur þegar frumvarpið kom frá nefndinni, hvort við ættum að hafa háskólarektor innan háskólaráðsins. Ég tel mikilvægt í ljósi þess að við erum að fara inn í nýtt umhverfi, til að mynda með sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans, að háskólarektor sitji og stjórni háskólaráðinu. En um þetta eru mjög skiptar skoðanir, sérstaklega á hinum Norðurlöndunum og þess vegna hafa háskólarektorar m.a. verið teknir út úr háskólaráðum. Ein röksemdin er sú að þar sem háskólaráð hefur í auknum mæli eftirlit með innra starfi háskólans eigi að sinna endurskoðunarhlutverki og ákveðnu úrskurðarhlutverki sé ekki rétt að meiri hlutinn komi frá þeim stað sem það á síðan að hafa eftirlit með, að háskólaráð hafi síðan ekki eftirlit með sjálfu sér. Þetta eru röksemdir sem settar hafa verið fram á Norðurlöndunum. Þær hafa m.a. verið settar fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Samtök evrópskra háskóla lögðu það til í úttektum á sínum tíma að fjölga bæri a.m.k. utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði til að draga fram fleiri sjónarmið, fólk sem að sjálfsögðu hefði hagsmuni háskólans í huga. Þess vegna er m.a. sagt í greinargerð með frumvarpinu að þeir utanaðkomandi fulltrúar sem valdir eru, séu valdir með heildarhagsmuni háskólanna í huga og á grundvelli faglegrar hæfni sinnar en séu ekki beint starfsmenn. Það geta verið fyrrverandi starfsmenn háskólanna en ekki núverandi starfsmenn þeirra.

Þetta tel ég vera gríðarlega mikilvægt og í algeru samræmi við það sem við höfum verið að gera. Við höfum verið að auka sjálfstæði háskólanna og í þessu er enn frekar undirstrikaður möguleiki opinberu háskólanna að skipta skólanum upp í það sem við nefnum í frumvarpinu „skóla“. Ég vil hins vegar hvetja hv. menntamálanefnd að taka tillit til þess sem hv. þingmaður Mörður Árnason sagði varðandi orðalag. Það er umdeilanlegt hvort nota eigi orðið „skólar“ eða hvort nota eigi annað orð. Það sama gildir varðandi forsetahugtakið sem er nánar tiltekið í 12. gr. frumvarpsins, að mig minnir. Hv. menntamálanefnd skoðar það en ég tel miklu máli skipta að háskólaráðið sé að meiri hluta til skipað fólki utan háskólans en lúti engu að síður forustu háskólarektors.

Hvers vegna er það gert? Það er vegna þess að hlutverk svonefndra „skóla“ sem skólunum verður skipt í, verður aukið mjög. Þar hafa nemendur mun meira vald en þeir hafa núna í svonefndum deildum og vægi „skólanna“ mun verða gríðarlega mikið innan háskólanna, þar eru starfsmenn háskólans sem stjórna og ráða för. Háskólaráðið hefur síðan eftirlit með öllu saman og þess vegna tel ég mikilvægt að í háskólaráði sé að meiri hluta til utanaðkomandi fólk. Ég vil undirstrika það að m.a. á Norðurlöndunum, í Danmörku, eru háskólaráðin skipuð að öllu leyti fólki utan háskólanna. Ég taldi ekki rétt að ganga alla leið, ég valdi að fara þessa leið. Sumir segja að þetta sé ákveðin millileið. Ég held að þetta sé farsæl leið hjá okkur þar sem við tengjum með þessu saman aðila innan háskólans og aðila sem hafa þá faglegu hæfni sem við leitum að og koma utan frá. Ég vonast til að það verði öflugir menn og konur sem hafa sterk tengsl við atvinnulífið eða rannsóknir á stofnunum o.s.frv. Það má skoða þetta með margvíslegum hætti en tel ég þetta gríðarlega mikilvægt til að við getum byggt upp sjálfstæða háskóla enn frekar, öfluga háskóla og jafnframt háskóla sem eru í svipuðu umhverfi og við keppum við á alþjóðlegum vettvangi.

Varðandi 24. gr. er einhver misskilningur í gangi, vísvitandi eða óafvitandi, um að verið sé að lauma inn einhverri skólagjaldaheimild þar. Það er af og frá. Ég ítreka það sem ég sagði: Það er engin skólagjaldaheimild í þessu frumvarpi. Það er hins vegar verið að setja inn í 24. gr. mikilvægið sem háskólaráðið hefur. Við segjum: Hafið í guðanna bænum skoðun á því hver inntökugjöldin eiga að vera. Það getur vel verið að þau verði lægri. Eins og við þekkjum, og hv. þm. Mörður Árnason fór ágætlega yfir, þá settu allir opinberu háskólarnir fram sömu tölu. Gott og vel. Fram til þessa hefur aðferðin verið sú að það er í rauninni bara ráðherra og þingið sem hafa komið að því að móta þessa 45 þús. kr. tölu. Ég held að það sé mikilvægt að háskólaráð a.m.k. hafi skoðanir á því þannig að við segjum að háskólaráðið geti komið með tillögu sem verður aldrei hærri en það sem þingið samþykkir. Í dag eru það 45 þúsund og svo verður maður líka að hafa það í huga að það verður að sjálfsögðu að vera rökstuðningur fyrir því hver innritunargjöldin eiga að vera. Við þekkjum öll umræðuna um þjónustugjöld eða skólagjöld. Það verða að vera ákveðnar forsendur fyrir því að hægt sé að innheimta innritunargjald í háskólanum og ég tel mikilvægt að háskólaráð sitji ekki hjá og sé skoðunarlaust um hvert það er. Ég held að það sé fagnaðarefni að það séu fleiri en þing og ráðherra sem hafi skoðanir á þessu. Ég tel mikilvægt að fá formlega skoðun háskólaráða hverju sinni. Það kann að vera umdeilanlegt en ég tel að það séu fleiri sem munu þá hafa skoðanir og koma með tillögur að þessu en þingið sjálft. En á endanum er það alltaf þings að ákveða hvert innritunargjaldið er hverju sinni og það verður að vera í samræmi við önnur lagaskilyrði og lagaforsendur sem gerðar eru til innritunargjalda.

Varðandi 1. gr. og af hverju nöfn Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri eru ekki í þeirri grein þá get ég alveg upplýst að ég hef mikla samúð með þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið fram hér og tel mikilvægt að hv. menntamálanefnd skoði það sérstaklega. Hins vegar vil ég geta þess að hugsjónin á bak við þetta er sú að menn vita það að háskólinn á Hvanneyri fellur undir menntamálaráðuneytið en lýtur enn þá lögum um búfræðslu. Endurskoðun á þeim lögum mun eiga sér stað innan tíðar og þegar hún hefur farið fram mun háskólinn á Hvanneyri falla undir þessi lög. Í staðinn fyrir að þurfa aftur að breyta lögunum um háskóla þá þarf í rauninni einfalda auglýsingu. Sumir sögðu að menn ætluðu með þessu að fara einhverja fjallabaksleið í átt til einkavæðingar. Það er útúrsnúningur að segja að menn ætli sér það. Það eru önnur lög sem halda utan um skólana og fjárframlög, það eru fjárlögin. Þar kemur skýrt fram hvert framlag til opinberu háskólanna er, til Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Enginn ætlar sér að einkavæða Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri, enda eru þetta þær meginstoðir sem við höfum varðandi háskólastarfsemi. Við gerum meiri kröfur til þessara háskólastofnana en við getum gert til annarra. Þær standa undir þeim kröfum með prýði. Þetta er eitthvað sem nefndin getur farið yfir en hugsunin er engu að síður sú að þarna verði svigrúm og sveigjanleiki til að geta tekið við Hvanneyri þegar þar að kemur, Hvanneyri getur þá fallið beint undir þessi lög með einfaldri auglýsingu. Ég hvet hv. menntamálanefnd og þingmenn að fara vel yfir þetta.

Ég hef farið yfir helstu atriðin en stóru málin virðast vera þau sem eru tengd háskólaráðinu annars vegar og 24. gr. hins vegar. Ég tel að ég hafi farið yfir þau sjónarmið (Forseti hringir.) sem sett hafa verið fram en að öðru leyti mun menntamálanefnd gefast tækifæri til að fara yfir önnur þau atriði (Forseti hringir.) sem bent hefur verið á í þessari umræðu.