135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[20:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Landeyjahöfn. Með frumvarpinu er lagt til að byggð verði ferjuhöfn í Bakkafjöru á Landeyjum sem þjóna muni ferjusiglingum milli fastalandsins og Vestmannaeyja.

Virðulegi forseti. Þetta mál á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun.

Upphafið má rekja til þingsályktunartillögu sem samþykkt var á 126. löggjafarþingi 2000–2001 um að fela samgönguráðherra að hlutast til um við Siglingastofnun Íslands að hefja sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru og öðrum aðstæðum tengdum ferjuleið milli lands og Eyja. Nefndu flutningsmenn meðal annars að slík framkvæmd mundi gjörbylta samgöngum milli lands og Eyja, bæði með verulega styttri ferðatíma, allt niður í 20 mínútur, og verulegri fjölgun ferða, á 30–60 mínútna fresti.

Í framhaldinu var ákveðið að skipa starfshóp til að fjalla um samgöngur til Vestmannaeyja og skilaði hópurinn lokaskýrslu árið 2006. Þar var meðal annars mælt með ferjuhöfninni til að bæta almenningssamgöngur á þessari leið.

Í júlí 2006 var síðan skipaður stýrihópur til að vinna forathugun og forhönnun á ferjuhöfn í Bakkafjöru. Hópurinn skilað skýrslu í mars 2007 og voru niðurstöður hennar mjög jákvæðar. Var það álit stýrihópsins að ferjuhöfn á þessum stað væri mjög góður kostur fyrir samgöngur milli lands og Eyja. Stýrihópurinn lagði til að tekin yrði ákvörðun um að ráðast í hafnargerðina og smíði nýrrar ferju svo fljótlega yrði hægt að byrja undirbúning að gerð hafnarinnar.

Skemmst er frá því að segja að ákveðið var að fara að tillögum stýrihópsins og byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru í Landeyjum. Þá var ákveðið að framkvæmdin yrði alfarið fjármögnuð af ríkissjóði og höfnin síðan rekin af ríkinu. Er gert ráð fyrir fjármagni í framkvæmdir í samgönguáætlun 2007–2010 og fjárlögum 2008.

Þar sem um einstaka framkvæmd er að ræða, sem að öllu leyti verður fjármögnuð af ríkinu, eiga gildandi hafnalög ekki að öllu leyti við um höfnina og má sem dæmi nefna að hafnalögin gera ekki ráð fyrir að hafnir séu í eigu ríkisins.

Því er nauðsynlegt að setja sérlög sem gilda um þessa ferjuhöfn eingöngu og er með frumvarpinu lagður til ramminn um framkvæmdir og rekstrarform hennar. Þar sem frumvarpinu sleppir er gert ráð fyrir að hafnalögin gildi eftir því sem við á.

Hæstv. forseti. Ég mun nú stuttlega gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins.

Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um fjármögnun framkvæmdanna við byggingu hafnarinnar auk eignarhalds og rekstrarforms hennar að loknum framkvæmdum.

Í fyrsta lagi er að nefna að lagt er til að ferjuhöfnin nefnist Landeyjahöfn. Hefur ekki annað komið fram í undirbúningsvinnu allri en að almennt séu menn sáttir við þá nafngift.

Í öðru lagi er lagt til að höfnin verði að fullu í eigu ríkisins, yfirstjórn hafnarinnar verði hjá samgönguráðherra en Siglingastofnun Íslands hafi fyrir hönd ríkisins umsjón með framkvæmdum og rekstri og gegni hlutverki hafnarstjórnar.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að gera þjónustusamning um rekstur hafnarinnar.

Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði að taka eignarnámi land undir höfnina og efni til byggingar hennar.

Það er ljóst að án lands eða efnis verður engin höfn byggð. Því er nauðsynlegt að tryggja að ekki komi upp sú staða að land eða efni fáist ekki og fyrirhuguðum framkvæmdum með því stefnt í voða.

Eins stjórnarskrá okkar kveður á um verður land eða efni ekki tekið eignarnámi nema lagaheimild sé fyrir hendi til þess. Engar eignarnámsheimildir eru í hafnalögum eða öðrum lögum vegna hafnargerðar og er ákvæðinu um eignarnámsheimild í frumvarpinu ætlað að bæta úr því.

Rétt er að benda á að hér er um sambærilega eignarnámsheimild að ræða og er að finna í vegalögum vegna þjóðvegagerðar enda eiga sömu sjónarmið um almannahagsmuni við í þessu tilviki, en eins og ég nefndi áðan er ferjuhöfnin mikilvægur þáttur í almenningssamgöngum milli lands og Eyja og því almannahagsmunir verulegir af því að höfnin verði að veruleika.

Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að fullar bætur komi fyrir það sem tekið er eignarnámi eins og stjórnarskráin mælir fyrir um og að farið verði eftir lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins en því til viðbótar má nefna að í frumvarpinu er að finna reglugerðar- og gjaldtökuheimild auk þess sem fjallað er um uppgræðslu sanda á Bakkafjöru.

Eins og fram hefur komið er hér um mikilvægt mál að ræða sem á eftir að gjörbreyta samgöngum milli lands og Vestmannaeyja bæði hvað varðar ferðatíma og ferðatíðni. Mikið hefur verið rætt um samgöngumál milli lands og Eyja og nauðsyn þess að bæta verulega úr þeim. Frumvarpið um Landeyjahöfn er liður í þeim úrbótum og er nauðsynlegur rammi til að hægt verði að ráðast í framkvæmdir við byggingu ferjuhafnarinnar.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri heldur legg til að frumvarpið verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.