135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[20:48]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska samgönguráðherra og þjóðinni til hamingju með að þetta mál er þó komið það vel áleiðis að við erum að tala um lög um Landeyjahöfn og ég vona að úr því sem komið er muni þessi framkvæmd ganga vel og hnökralaust fyrir sig. Fyrir byggðina í Vestmannaeyjum hljótum við að vera samtaka í að berjast fyrir bættum samgöngum. Ég vil hafa þann fyrirvara á hamingjuóskum um þetta mál að ég treysti því að menn hafi þá leyst fyllilega úr þeim tæknilegu spurningum og vafamálum sem hafa verið varðandi það að þetta sé fær leið, hún sé heppileg út af brimskaflinum sem margir reyndir sjómenn og skipstjórar í Vestmannaeyjum hafa verið gagnrýnir á. Ég tel raunar að hið háa Alþingi og framkvæmdarvaldið geti ekki annað en treyst ráðgjöf færustu sérfræðinga í þessum efnum.

Það eru samt tvær hliðar á þessu máli og gleðin yfir því að sjá núna mikinn áfanga í samgöngumálum Vestmannaeyinga blandast því um leið að mjög lengi hafa stjórnvöld skellt skollaeyrum við því að gera þarna úrbætur og kannski þegar við förum núna í þessa framkvæmd er að vissu leyti klaufalega að undirbúningi staðið. Ég held að við fáum þess vegna þann andróður sem við fréttum núna af í Vestmannaeyjum þar sem stór hluti íbúa hefur skrifað undir undirskriftalista og er hreinlega á móti framkvæmdinni.

Við höfum haft um nokkuð margar leiðir að velja í þessu vandamáli og það eru nokkuð mörg ár síðan þingmenn Framsóknarflokksins undir forustu Hjálmars Árnasonar lögðu til í þingumræðu og almennri umræðu að horft yrði til þess að fá hraðskreiðara skip milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Það hefði verið ekki eins dýr leið og við hefðum getað ráðist í hana miklu fyrr. Sá Herjólfur sem nú þjónar var kannski viðunandi sjóskip þegar hann var tekinn í notkun fyrir tveimur áratugum en óneitanlega reyndar alltaf nokkuð veltinn eftir að hafa verið styttur og algerlega barn síns tíma. Það hefði verið hægt og væri hægt að stytta samgönguleiðina þarna á milli verulega með hraðskreiðara og nútímalegra skipi sem hefði verið eðlileg framþróun í samgöngum milli lands og Eyja. Það þýðir þó ekki að æðrast yfir því sem ekki var gert á liðnum árum og mikilvægt að núna er lagt út í vegferð sem mun skila mikilli samgöngubót milli lands og Eyja. Vissulega munar um að stytta samgöngutímann á sjó, enda fólki mishent að vera lengi í sjóferðum. Sjálfur þekki ég það úr kosningaferðalögum mínum að það getur verið ansi óþægileg tilfinning að halda stjórnmálafund eftir mikið volk í sjó og eftir að hafa orðið sjóveikur á leiðinni. Verra er það þó auðvitað fyrir fólk sem býr við slíkt alla daga að geta þurft að fara þarna á milli í misjöfnum veðrum.

Aðeins varðandi það sem hér hefur verið rætt um kostnað við þessa framkvæmd, ég tek undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að ég hef efasemdir um að þeir 3 milljarðar sem hér eru tilgreindir sem kostnaður við þessa höfn séu nægileg upphæð. Mér þætti vænt um það ef hæstv. samgönguráðherra væri til í að reifa þær tölur betur, hvaða möguleikar eru á því að þetta muni duga og hvort einhverjar fráviksspár séu í þeim efnum.

Síðan varðandi eignarhald á hafnarmannvirkjunum, ég tel í rauninni eðlilegt eins og að þessu er staðið að höfnin verði í eigu ríkisins, a.m.k. fyrst um sinn. Menn geta horft til annarra leiða seinna meir þegar framkvæmdin er komin upp en við ætlum að kosta þessa framkvæmd algerlega af ríkisfé og þess vegna er óeðlilegt að yfirfæra hana til sveitarfélaganna fyrr en þá eftir að framkvæmdum er lokið. Það er að því leytinu til svolítið flókið að hagsmunir Rangárþings eystra af því að eiga þessa höfn þar sem höfnin er staðsett eru ekki eins miklir og Vestmannaeyinga. Vissulega mun þetta þó verða lyftistöng fyrir mannlíf í Landeyjum og þar erum við komin einmitt á það svæði á Suðurlandi þar sem gætir ekki lengur, getum við sagt, þensluáhrifa frá höfuðborgarsvæðinu.

Það eru tvö atriði í lagafrumvarpinu sem ég vil gera athugasemdir við og spyrja um, annars vegar varðandi 4. gr., um eignarnámsheimildir. Ég velti fyrir mér hvers vegna sérstaklega þurfi að tilgreina eignarnámsheimildir í þessum lögum. Það kann að vera ókunnugleiki minn en ég hefði haldið að við framkvæmdir eins og þessar giltu almennar reglur um eignarnám sem væri þá hægt að styðjast við ef svo færi að samningaleiðin reyndist ekki fær. Æskilegra teldi ég að hægt væri að fara hana. Varðandi eignarnámsheimild fyrir efnistöku vekur sú grein nokkra undrun mína. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landeiganda ber að leyfa efnistöku í landi sínu á því efni sem þarf til hafnargerðarinnar, hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir.“

Landeigendum almennt í öllu næsta nágrenni eða landeigendum þar sem ríkinu líst vera hagstæðast að taka þetta efni? Nú er það þannig að efni til þessara mannvirkja má örugglega taka mjög víða í víðlendu héraði og ég á einhvern veginn bágt með að trúa því að ekki sé hægt að fara samningaleiðina gagnvart einhverjum landeigendum. Ég tel það alveg kostandi til þó að kannski þurfi að fara einhverjum kílómetrum lengra eftir efni ef þá er hægt að komast hjá því að taka land eignarnámi sem á að vera neyðarúrræði en ekki eitthvert ráð sem við notum bara ef það hentar betur.

Hitt atriðið sem ég vil gera athugasemd við í frumvarpinu er málfræðilegt og lýtur að notkun á örnefnum í 4. gr. Það segir í beinu framhaldi af því sem ég las áðan, með leyfi forseta:

„Þá er samgönguráðherra heimilt að ákveða, að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands, að ríkið taki eignarnámi land er þarf fyrir varnargarða meðfram Markarfljóti og Álunum …“

Ég tel að miðað við þá málvenju sem ég hef vanist austur frá eigi þetta ekki að vera með greini þarna. Markarfljót er ekki haft með greini enda væri það ankannalegt. Það er einnig ankannalegt að tala um Álana, með greini. Þetta er fleirtöluorð, Álar, og þetta er örnefni sem vísar til þess að þarna rann Markarfljótið lengst af í álum þvers og kruss yfir allar Landeyjarnar sem voru vissulega eyjar á þeim tíma. Ég held að greinirinn hafi slæðst inn fyrir einhver mistök og óska eftir að ráðherra taki til greina að breyta því.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur að við eigum að fara í þessa framkvæmd með þessum hætti og þrátt fyrir að það sé nokkur ágreiningur um þetta mál í Vestmannaeyjum held ég að við eigum alls ekki að fresta því meðan ekki liggur fyrir að það séu neinir tæknilegir hnökrar á því að sigla þessa leið. Byggð í Vestmannaeyjum þolir ekki að vera enn og aftur sett á ís með þetta. Þar er byggðaþróun alls ekki með nógu hagfelldum hætti og ef eitthvert byggðarlag á það algerlega inni hjá sinni þjóð fyrir verðmætasköpun sína til margra áratuga að núna í allsnægtunum sé komið vel til móts við þarfir hennar varðandi samgöngur er það þessi stærsta verstöð Íslendinga til áratuga.