135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:01]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að það sé alveg ljóst að þótt ég hafi minnst hér á Landeyjar tel ég ekki að ráðast eigi í þessa framkvæmd fyrir Landeyjarnar einar. Ég hef vissulega áhyggjur af því, og tek undir það með hv. þm. Ármanni Ólafssyni, að andstaða er við málið í Vestmannaeyjum. Ég hef verið hugsi yfir því. Ég tel engu að síður að okkur beri að virða forræði sveitarstjórnar í Vestmannaeyjum í þessum efnum.

Ég skal aftur á móti viðurkenna að ef við værum að tala um helming kosningabærra manna liti málið í mínum huga töluvert öðruvísi út. Ef helmingur eða meira af kosningabærum mönnum skrifar undir eitthvað, gerir einhverja kröfu, er sveitarstjórn eftir það ekki stætt á því að standa á móti slíkri kröfu. Mitt pólitíska siðferði segir það. Í þessu tilfelli er, eftir því sem ég best veit, ekki um það að ræða. Mér finnst þetta ekkert öfundsverð staða, hvorki fyrir Vestmannaeyinga, fyrir bæjarstjórnina þar né fyrir okkur sem tökum ákvörðun um þetta.

Ég legg áherslu á að samgöngumál í Vestmannaeyjum eru í óviðunandi ástandi. Um það höfum við, framsóknarmenn, fjallað og fjölluðum talsvert um það á síðasta kjörtímabili að við teldum að menn hefðu sofið í þessu máli og hefðu átt að sinna úrbótum miklu fyrr. Betur að svo hefði verið. Þá værum við ekki í þessari stöðu nú. Úr því að svo varð ekki liggur okkur virkilega mikið á vegna þess (Forseti hringir.) að staða byggðaþróunar í Vestmannaeyjum er ekki nógu góð.