135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:03]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Harðarsyni hvað það varðar að bæta þurfi samgöngur til Eyja en ef Eyjamenn vilja fá nýtt og öflugt skip frekar en Landeyjahöfn finnst mér að hlusta eigi á það. Það liggur fyrir hér að hv. þingmaður telur að ef fram kemur undirskriftalisti með nöfnum helmings kosningabærra manna sé í rauninni búið að fella málið og þá geti hann ekki stutt það. Undirskriftum var safnað tiltölulega óskipulega í viku og höfðu yfir 40% ritað nafnið sitt þar á. Hvað ef menn fara nú í skipulega söfnun? Ég yrði ekki hissa á að þá færi þetta yfir 50%.

Þá spyr maður: Væri ekki æskilegt að gera eina skoðanakönnun áður en við afgreiðum þetta endanlega héðan út? Eina skoðanakönnun þar sem úrtakið væri kosningabærir íbúar í Eyjum. Ætlum við að samþykkja þessa aðgerð með þá fullvissu að meira en helmingur Eyjabúa er á móti því, um það bil helmingur sé með framkvæmdinni og helmingur á móti? Við verðum að hafa í huga að við erum að tala um gríðarlega fjármuni. Ég tel þetta hæpið. Við verðum að endurskoða þetta í þessu ljós og eins í ljósi yfirlýsingar þess sem talaði hér á undan mér, þingmanns þessa kjördæmis, hv. þm. Bjarna Harðarsonar.