135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:07]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að leysa þessi mál strax. Víða um heim er hægt að fá stórar, góðar og hraðskreiðar ferjur. Síðastliðið haust, að mig minnir, var fengin ferja til að leysa Herjólf af þegar hann bilaði og þurfti að fara í slipp. Þá var tekið stórt og hraðskreitt skip. Ég veit ekki hvort það var miklu hraðskreiðara en Herjólfur en það var bæði stærra og á margan hátt fullkomnara. Það er ekkert mál að fá stærra skip ef menn vilja gera það. Það er sorglegt til þess að vita að það vanti 60–70 millj. kr. til að rannsaka almennilega hvað göng kosta, það er sorglegt að við skyldum ekki klára það.

Eins og ég segi: Það er hægt að leigja skip. Ég ætla að spyrja hæstv. samgönguráðherra að því hvort tilboðið sem kom í þennan nýja Herjólf sé ekki 50% hærra en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir og kosti kannski 4 milljarða. Það er því strax verið að tala um — ef því tilboði væri tekið, ódýrasta tilboðinu — að þetta sé þegar komið á áttunda milljarð. Ef mín spá reynist svo rétt, að það þurfi að setja í þetta, má hækka þá tölu kannski um 15 milljarða, sem mér finnst vera orðið dálítið mikið þó það væru bara 12–15 milljarðar.

Undirskriftasöfnunin hefur bara staðið yfir í sjö daga. En þetta mál á að snúast um samgöngur til Vestmannaeyja númer 1, 2 og 3, hvaða leið, hve hratt og hvernig getum við farið á milli á sem stystum tíma. Það er málið í dag.