135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:11]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að spyrja hv. þm. Bjarna Harðarson og benda honum á að hægt væri að grípa til aðgerða strax. Hægt væri að leigja skip og það er ekki of seint að snúa við og hætta þessari kannski allt of áhættusömu aðgerðum sem verða ekki nógu góðar fyrir samgöngur til Vestmannaeyja. Þess vegna kom ég inn á að það væri slys að hafa ekki rannsakað betur það sem sneri að göngunum.

Ef við erum að tala um eitthvað sem kostar orðið yfir 20 milljarða — og þurfum svo að reka skip fyrir milljarð, einn og hálfan milljarð, á hverju ári í meðgjöf frá ríkinu eða frá samfélaginu — er engin spurning um það að á tíu árum erum við komin upp í 30 milljarða með stofnkostnaði og rekstri á skipi. Ef þetta fer eins og ég held að það verði þarf að setja í þetta yfir 20 milljarða, 18 milljarða í hafnarframkvæmdir, 4 milljarða kr. í nýjan Herjólf, sem búið er að bjóða út, og á tíu árum þurfi síðan að setja í það milljarð, einn og hálfan milljarð, að reka skipið á hverju ári. Ég veit reyndar ekki nákvæmlega hvaða tilboð voru í það en væntanlega getur hæstv. samgönguráðherra upplýst okkur um það hvaða tilboð komu í Herjólf og hvað hann á að kosta, nýja ferju sem á að sigla samkvæmt þeirra hugmyndum í Bakkafjöru.

Þetta er hlutur sem ég vildi koma inn á. Það er hægt að gera ýmislegt strax, hv. þm. Bjarni Harðarson.