135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:19]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Já, það má segja að það sé slæmt að þurfa að tala um þetta mál í dag. Þetta ætti að vera gert með öðrum hætti. Ég harma að þessi leið hafi verið valin. Þetta er ekki besta leiðin. Að mínu mati er þetta versta leiðin af þremur mögulegum. Ég hefði viljað sjá alvörugöng, og ef ekki göng þá hefði ég viljað nýrri Herjólf. Og þó að menn hefðu verið að hugleiða göng í dag sem ættu kannski að kosta 25–30 milljarða hefði ekkert veitt af því að kaupa eða leigja stóran Herjólf sem gengi hratt á milli lands og Eyja, skip sem gengi 25–30 mílur og væri ekki nema einn og hálfan tíma á milli og jafnvel ekki svo lengi.

Það er hægt að ræða þessi mál út frá þessu. Það er af og frá að þingmenn Suðurkjördæmis séu að vinna á móti þessu máli. Þeir eru að vinna að bættum samgöngum í Vestmannaeyjum. Þeir hafa áhyggjur af því að við búum kannski við þær á meðan Alþingi Íslendinga safnar 16–18 milljörðum í hafnarframkvæmdir í Bakkafjöru sem við gætum lent í ef við þurfum að fara með garðana út fyrir svokallað rif svo að hægt verði að nota höfnina.

Þetta er hlutur sem bæði skipstjórar í Vestmannaeyjum og sjómenn hafa bent á og margir hverjir hafa varað við því að þessi leið yrði farin. Það er ekkert að ástæðulausu að 45% Eyjamanna safnast saman og skrifa undir undirskriftalista á einni viku til að mótmæla þessum gjörningi. Það er verið að tala um að við séum að fara aftur á bak í samgöngumálum við Vestmannaeyjar. Um það snýst (Forseti hringir.) málið.