135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 833. Tilgangur frumvarps þessa er, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að heimila prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni. Samkvæmt núgildandi lögum um staðfesta samvist eru það eingöngu sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra sem annast staðfestingu samvistar.

Með lögfestingu frumvarpsins yrði því stigið enn eitt skref í þá átt að jafna réttarstöðu fólks óháð kynhneigð. Samkynhneigð pör munu þá geta staðfest heit sitt hvort gagnvart öðru frammi fyrir presti eða forstöðumanni skráðs trúfélags líkt og gildir um hjúskap karls og konu. Kemur frumvarpið í framhaldi af mikilvægum réttarbótum á þessu sviði undanfarin ár.

Má þar fyrst nefna samþykkt laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, þar sem sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni var veitt svipuð staða að lögum og hjónabandi karls og konu.

Með lagabreytingu árið 2000, sbr. lög nr. 52/2000, var einstaklingi í staðfestri samvist heimilað að ættleiða barn maka síns.

Árið 2006 var síðan á grundvelli frumvarps þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, samþykkt víðtæk breyting á ýmsum lögum, sbr. lög nr. 65/2006. Þau lög fólu meðal annars í sér rýmkun skilyrða fyrir stofnun staðfestrar samvistar þannig að ekki var lengur krafist fastrar búsetu á Íslandi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut, tekið var af skarið um að jafnt samkynhneigð pör sem gagnkynhneigð gætu fengið sambúð skráða í þjóðskrá, samhliða var lagaákvæðum á fjölmörgum sviðum breytt til þess að ljóst væri að óvígð sambúð samkynhneigðra væri lögð að jöfnu við óvígða sambúð gagnkynhneigðra. Þá varð heimild samkynhneigðra para til að ættleiða börn sú sama og gagnkynhneigðra para. Kona í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist með annarri konu fékk enn fremur heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun líkt og á við um gagnkynhneigð pör.

Við undirbúning og afgreiðslu lagabreytinganna árið 2006 var ákveðið að breyta ekki að svo stöddu vígsluheimildum þjóðkirkjunnar og trúfélaga. Réttaráhrif staðfestrar samvistar voru því að öllu leyti þau sömu og hjúskapar en ákvæði um stofnun þessara tveggja gerninga voru áfram ólík. Eins og fram kemur í áliti háttvirtrar allsherjarnefndar um frumvarp það sem varð að lögum nr. 65/2006, samanber þskj. 1181 á 132. löggjafarþingi, taldi nefndin að umræða um breytingar á vígslurétti trúfélaga þyrfti lengri aðdraganda.

Undanfarin ár hefur farið fram mikil umræða innan þjóðkirkjunnar um þetta tiltekna atriði sem út af stóð við lagabreytingarnar 2006. Á kirkjuþingi 2007 var síðan samþykkt ályktun þess efnis að yrði lögum um staðfesta samvist breytt þannig að trúfélög fengju heimild til að staðfesta samvist þá styddi kirkjuþing það að prestum þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, yrði það heimilt. Lagði kirkjuþing áherslu á að frelsi presta í þessum efnum yrði virt. Samkvæmt því hefur náðst sátt innan þjóðkirkjunnar og ekkert er því til fyrirstöðu að lögfesta heimild þessa.

Frumvarp þetta hefur verið unnið í nánu samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið en samkomulag varð um að forsætisráðherra flytti það enda kemur frumvarpið í beinu framhaldi af lagabreytingunum árið 2006 sem fyrr eru nefndar.

Frumvarpið er aðeins tvær greinar sem skýra sig að mestu sjálfar. Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga verði heimilað að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni. Þar með verði þeim sömu og hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, heimilað að annast staðfestingu samvistar. Eins og frumvarpið ber með sér verður hér um heimild að ræða en ekki skyldu. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið verður að virða frelsi presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga í þessum efnum en jafnframt er á því byggt að þeir muni ekki synja um staðfestingu þegar lagaskilyrði eru fyrir hendi af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar.

Í 1. gr. frumvarpsins er jafnframt að finna orðalagsbreytingar á gildandi lögum í þá veru að talað verði um að vígslumenn staðfesti samvist frekar en að þeir framkvæmi staðfestingu. Enga efnisbreytingu er þar um að ræða.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um gildistöku 27. júní 2008 og er það til samræmis við gildistöku annarrar þýðingarmikillar löggjafar á þessu sviði að hana hefur borið upp á alþjóðlegan mannréttindabaráttudag samkynhneigðra.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum verið í fararbroddi þjóða að því er varðar viðurkenningu á réttindum einstaklinga án tillits til kynhneigðar. Um þær breytingar hefur verið allvíðtæk samstaða í þjóðfélaginu og meðal allra stjórnmálaflokka. Er það von ríkisstjórnarinnar að hið sama eigi við um þær breytingar sem finna má í frumvarpi því sem ég hefi nú mælt fyrir.

Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.