135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:49]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hafi eftir atvikum gefist vel hér á landi að innleiða breytingar á þessu sviði smám saman. Ég hygg að í Noregi hafi verið lagt fram nýlega frumvarp um það efni að gert væri ráð fyrir sama hugtakinu yfir hjúskap karls og konu og tveggja einstaklinga af sama kyni. Það hafa orðið mótmæli í landinu vegna þess máls. Það er umsvifamikið frumvarp. Ég tel því að það hafi gefist vel að innleiða þessar breytingar smám saman. En eftir að það frumvarp hefur verið samþykkt sem er núna til umræðu þá er auðvitað vert að ræða það sem hv. þingmaður nefndi, hvort tímabært sé að sameina hjúskaparlögin og lögin um staðfesta samvist og búa til úr því einn lagabálk. Ég tel miðað við aðdragandann að þessu öllu saman á undanförnum árum að þá þurfi að gefa sér nokkurn tíma áður en farið yrði í slíkt og leyfa mönnum að átta sig á reynslunni af þessum nýju lögum því aðalatriðin og efnisatriðin verða þá komin öll í lög og það er svo frekar lagatæknilegt atriði hvort þetta eigi allt heima í sömu lögunum eða ekki.